Orkuskipti í flutningum
Mikilvægi þess að bjóða umhverfisvænar lausnir í flutningum og kostir fjölþátta flutningskerfis þegar kemur að því að draga úr kolefnisfótspori í flutningum eru meðal þess sem Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa, nefndi í pallborðsumræðum á Charge ráðstefnunni sem fór fram í Hörpu í Reykjavík.
Í pallborði með Birki voru Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, og Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins, en umræðunum stýrði sjónvarpsmaðurinn góðkunni Gísli Marteinn Baldursson. Þau voru kölluð saman sem fulltrúar þriggja samgöngumáta, skipaflutninga, flugs og aksturs, til að ræða um orkugjafa framtíðar í samgöngum og þróun á þeim vettvangi.
Jón Trausti upplýsti að fjórar af hverjum tíu nýskráðum bifreiðum væru rafmagns- eða hybrid-bílar. Þá greindi Elín sagði stuttlega frá aðgerðaráætlun ISAVIA frá 2014 með áherslu á umhverfisþætti.
Birkir Hólm þekkir til bæði fólks- og vöruflutninga. Hann fór í máli sínu yfir 10 ára feril sinn sem framkvæmdastjóri Icelandair áður en hann tók við starfi forstjóra Samskipa í lok síðasta árs, þar sem hann er nú í fararbroddi vöruflutninga til og frá landinu.
Samskip leggja ríka áherslu á umhverfisvernd í starfsemi sinni og ræddi Birkir meðal annars mikilvægi þess að bjóða upp á umhverfisvænar lausnir í flutningum. Þar njóta Samskips styrks fjölþátta flutningskerfis sem minnkar kolefnisfótspor af starfseminni.
„Við leggjum áherslu á að bjóða viðskiptavinum okkar eins grænar lausnir í flutningum og kostur er á, sem þýðir að dregið er eftir megni úr umhverfisáhrifum starfseminnar með vöruþróun, bættri orkunotkun og fjölbreyttari orkugjöfum,“ segir Birkir.
Hann fór yfir þróun og þróunarstarf sem unnið hefur verið innan Samskipa í tengslum við aukna umhverfisvitund síðustu ár og áratugi. Til dæmis upplýsti hann að gámar eru fimmtungi léttari nú en þeir voru fyrir 20 árum, sem dregur úr eldsneytisnotkun og þarf af leiðandi útblæstri. Þá ræddi hann samstarf Samskipa við Mercedes Benz, sem þýðir að ávallt er notast við nýjustu og umhverfisvænustu flutningabíla sem kostur er á og samstarf við vélaframleiðandann MAN í Þýskalandi um þróun á betri og minna mengandi vélum í skip.
Eins nefndi Birkir margvíslegt annað þróunarstarf sem unnið er innan Samskipa, svo sem með notkun umhverfisvænna orkugjafa í skipaflutningum á skemmri leiðum í Evrópu, samstarf við Háskólann í Delft í Hollandi um rannsóknir á bát sem fær orku sína frá sólarsellum, og notkun sólarsella sem orkugjafa fyrir kæligeymslur Samskipa í Rotterdam.
Þá greindi Birkir frá því að umhverfisbakgrunnur Samskipa hafi orðið til þess að Samskip urðu fyrir valinu til að leiða „Seashuttle“ verkefnið í Noregi þar sem í þróun er næsta kynslóð sjálfbærra skipaflutninga á styttri sjóleiðum. Verkefnið vakti mikla athygli í erlendum fjölmiðlum en mikil umfjöllun var um það í Evrópu en einnig í Bandaríkjunum, Indlandi og Rússlandi.
Norsk stjórnvöld styrkja Seashuttle-verkefnið og láta af hendi rakna 6 milljónir evra, eða sem svarar til rúmlega 795 milljóna íslenskra króna, sem notaðar verða til að hanna sjálfvirk gámaskip sem gefa ekki frá sér mengandi útblástur en eru um leið arðbær til rekstrar.
Seashuttle er eitt sex verkefna í „PILOT-E", yfir 100 milljóna evra (11,6 ma. kr.) þróunarverkefni sem að koma meðal annars Rannsóknaráð Noregs, Innovation Norway og Enova. Verkefnið snýst um að flýta hönnun og nýtingu tækni sem hentar umhverfisvænum iðnaði framtíðar.