Rökstuðningur dómnefndar fyrir vali á menntafyrirtæki ársins 2014

Hér kemur rökstuðningur dómnefndar fyrir vali á Menntafyrirtæki ársins 2014 þar sem Samskip báru sigur úr býtum.

Samskip leggja sig fram um að efla mannauðinn með skipulögðum og fjölbreyttum hætti. Þar sem menntunarstig starfsmanna er mjög mismunandi er þetta mikil áskorun og brýnt að fræðslustarf sé hvetjandi, markvisst og fjölbreytt til að auka hæfni allra. Þannig skilar fræðslan sér í hærra menntunarstigi fyrirtækisins, eykur starfsánægju og færni starfsfólks og skapar verðmæti fyrir báða aðila. Fræðsluferlið er virkt í öllu fyrirtækinu og nær til allra starfsmanna. Sem dæmi má nefna mentorakerfi fyrir nýliða, íslenskukennslu fyrir erlenda starfsmenn, fræðsludagskrá vor og haust, hvatningu til að sækja raunfærnimat og fara í nám í kjölfarið ásamt  samstarfi við marga aðila.


Í Samskipaskólanum fyrir flutningastarfsmenn er unnið umbótaverkefni sem lokaverkefni í náminu. Þar leggja starfsmenn hugmyndir sínar að bættum verkferlum og nýjum lausnum fyrir stjórnendur fyrirtækisins. Námið er þannig með markvissum hætti yfirfært á starfsemi fyrirtækisins. Starfsmenn sem standa sig vel fá ný og ábyrgðarmeiri störf og eru hvattir til frekara náms. Fjarverutímar vegna slysa eru stöðugt fátíðari. Kannanir sýna að Samskip skorar hátt varðandi ánægju í starfi, góðan starfsanda, þekkingu á stefnu fyrirtækisins og stolti af að starfa hjá fyrirtækinu. Óhætt er að segja að mikil lærdómsmenning ríki hjá fyrirtækinu og vissa um að það skapi fyrirtækinu sterkari samkeppnisstöðu.