Samskip áfram einn helsti styrktaraðili HSÍ

Samskip og Handknattleikssamband Íslands hafa undirritað áframhaldandi samstarfssamning sem miðar að eflingu á handknattleiksíþróttinni á Íslandi.

Samskip og Handknattleikssamband Íslands hafa undirritað áframhaldandi samstarfssamning sem miðar að eflingu á handknattleiksíþróttinni á Íslandi. Samskip verða með samningnum eitt helsta samstarfsfyrirtæki HSÍ og um leið íslenskra karla- og kvennalandsliða í handknattleik.
 
Samskip og HSÍ hafa um árabil átt með sér gott samstarf sem snýr bæði að karla- og kvennalandsliðum Íslands. Styrkur Samskipa er fyrst og fremst í formi fjármuna en einnig hafa Samskip aðstoðað handknattleikssambandið með ýmsum hætti bæði varðandi flutninga á keppnisgólfi og einnig geymslu á því.
 
Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa undirritaði samninginn ásamt Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ. Ásbjörn sagði við það tækifæri að Samskip væru stoltir styrktaraðilar landsliðsins í handbolta og strákunum okkar fylgdu allar góðar óskir í því stóra verkefni sem framundan er. „Það verður gaman að fylgjast með þeim og við munum hvetja þá alla leið.“