Samskip eru traustur stuðningsaðili Andrésar andar leikanna

Líkt og síðustu þrjá áratugi eða svo styrkja Samskip Andrésar andar leikana sem Skíðafélag Akureyrar stendur fyrir.

Um er að ræða lang fjölmennasta skíðamót landsins, en að þessu sinni fara leikarnir fram dagana 24. til 27. apríl, frá miðvikudegi til laugardags. Saman koma hátt í þúsund keppendur á aldrinum sjö til fimmtán ára og keppa í svigi og stórsvigi, göngu, bæði hefðbundinni og með frjálsri aðferð, auk þess sem keppt er í þrautabraut.  „Við erum afar stolt af því að styðja við bakið á ungum og efnilegum skíðaköppum landsins og fylgjast með þeim taka framförum á þessum skemmtilega vettvangi “ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir markaðsstjóri Samskipa. 

Dagskrá leikanna er meðal annars að finna á Facebook-síðu Andrésar Anda leikanna.