Samskip mikilvægur samstarfsaðili fyrirtækja með umhverfisstefnu

 

Samskip hafa markað skýra stefnu í umhverfismálum, ekki aðeins í samræmi við samfélagslega ábyrga starfshætti félagsins heldur gengur viðskiptamódel félagsins enn lengra en kröfur samfélagsins gera.

 

 

Stefna Samskipa er að vera í fararbroddi á sviði umhverfismála. Samskip eru félagi í Festu og einn af stofnendum Votlendissjóðsins en einna mikilvægasti þátturinn í umhverfismálum Samskipa eru fjölþátta flutningar sem samkvæmt hvítbók Evrópusambandsins eru hagkvæmastir fyrir umhverfið. Viðskiptamódel Samskipa byggir á fjölþátta flutningum.

„Við erum með skýr markmið í umhverfismálum en við settum okkur þau markmið að minnka kolefnisspor í innanlandsflutningunum um 11 prósent á fimm ára tímabili, þ.e.a.s. frá 2015 til 2020 og í skipaflutningum um 10 prósent á sama tímabili,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir markaðsstjóri Samskipa á Íslandi. „Auk þess ætlum við að auka flokkun á endurnýtanlegum úrgangi úr 46 prósentum í 60 prósent. Þannig vinnum við markvisst að því að minnka kolefnissporið.“

Sjóflutningar umhverfisvænni kostur

Kolefnisfótspor eða losun koldíoxíðs (CO2) í sjóflutningum á minnstan hlut í heildarlosun á Íslandi. Ef bornir eru saman fraktflutningar í flugi og á sjó er þumalputtareglan sú að fyrir hvert flutt tonn af farmi séu gróðurhúsaáhrif flugsins um 15 sinnum meiri en skipsins. 

Visthæfni leikur stórt hlutverk hjá Samskipum og félagið er mjög framarlega í umhverfisvænni lausnum fyrir viðskiptavini sína. „Við nýtum umhverfisvænni kosti þar sem við ráðum yfir lestum og fljótaprömmum til viðbótar við vörubílaflutninga á meginlandinu. Þetta er svokölluð Multimodal eða fjölþátta hugmyndafræði sem byggir á því að skapa aukin verðmæti fyrir viðskiptavini, með umhverfisvænni flutningum. Það er gert með því að velja umhverfisvænasta flutningsmátann í hverjum legg fyrir sig og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda sem skiptir sífellt meira máli. Leggurinn með vörubílnum er til dæmis hafður eins stuttur og kostur er,“ segir Þórunn Inga.

Slíkir flutningar eru í takt við áætlanir Evrópusambandsins (European Union Transport Policy) og snúast um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda , nýta orku sem best, draga úr svifryki, fækka slysum, draga úr umferðarhnútum, auka framleiðni vinnuafls og draga úr sliti á vegakerfum. Viðskiptavinir Samskipa geta til dæmis nýtt sér koldíoxíðsreiknivél til að sjá hve mikið er hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að flytja með Samskipum en það skiptir marga viðskiptavini Samskipa mjög miklu máli, til dæmis þegar fyrirtæki halda umhverfisbókhald fyrir ársskýrslur.

Fjöldi metnaðarfullra verkefna í umhverfismálum

Umhverfisverkefni Samskipa samsteypunnar eru fjölmörg. Systurfyrirtæki Samskipa, FrigoCare, setti upp stærsta sólarorkuverið í Rotterdam í kæligeymslu sinni fyrir tveimur árum síðan.

Settar voru upp 3.100 sólarsellur sem þekja 7.500 fermetra. Raforkuframleiðsla þeirra er um 750 þúsund kílóvattstundir (kWst) á ári, eða sem nemur raforkuþörf um 250 smærri heimila. Hér er um mikilvægan áfanga að ræða í loftslagsmálum þar sem verkefnið hefur í för með sér umtalsverðan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á hafnarsvæðinu í Rotterdam, stærstu og annasömustu höfn Evrópu. Fleiri fyrirtæki á hafnarsvæðinu hafa fylgt fordæmi FrigoCare og reisa nú eigin sólarsellur.

Sífellt er fleiri steinum velt við svo finna megi umbótaverkefni í umhverfismálum. Undanfarið ár hefur Máni Eskur og starfsfólk hans í mötuneyti Samskipa unnið að verkefni sem snýst um að draga úr matarsóun. Um að ræða vitundarvakningu sem snýr að samfélagslegri ábyrgð og umhverfismálum og er í samræmi við stefnu félagsins í þeim málaflokkum. 

Þá hefur þvottastöð Samskipa fyrir stór ökutæki vakið athygli en mikil áhersla er lögð á að þvottastöðin sé eins visthæf og kostur er. Hún notar frárennslisvatn úr hitakerfum frá höfuðstöðvunum. Afgangsvatnið er sett í endurvinnslutank sem nýtist í þvottana og þá eru notuð sérblönduð efni fyrir bílaþvottastöðvar sem eru mildari fyrir umhverfið. Við reynum því að vera grænni og höfum að leiðarljósi að vernda umhverfið með sandföngurum og olískiljum meðal annars. Efnum er fargað með aðstoð Hreinsitækni sem vottað er til endurvinnslu og svo fara fram reglulegar úttektir á þvottastöðinni.

Auk þess taka Samskip þátt í þróunarverkefni í Noregi sem heitir Pilot-E en það snýst um að þróa skip sem losar engar gróðurhúsalofttegundir og styðst að miklu leyti við sjálfvirkni í lestun og losun.

Síðast en ekki síst nota Samskip vöruflutningabifreiðar sem eru ríkulega búnar tækjum og tólum sem miða að því að auka öryggi og tryggja minni útblástur og eins visthæfan flutning og völ er á. Bílarnir eru búnir vélum af EURO 6 gerð sem eru umhverfisvænustu dísilvélar sem í boði eru.

Það er því ljóst að umhverfismál skipa stóran sess hjá Samskipum en félagið hefur lagt mikla áherslu á fjölþátta flutninga frá síðustu aldamótum. Fyrir viðskiptavini félagsins skipta umhverfismál sífellt meira máli enda eru kröfur neytenda í umhverfismálum að aukast með hverju árinu.