Samskip Rotterdam verðlaunuð fyrir besta þjónustuvefinn 2017
Þjónustuvefur Samskipa vann til verðlauna fyrir besta notendaviðmótið á hátíð OutSystems Innovation Award 2017 í NBC ráðstefnuhöllinni í Nieuwegein í Hollandi 10. október. Alls kepptu 800 fyrirtæki við Samskip í flokki notendaupplifunar (e. User Experience). Við veitingu verðlauna OutSystems var í ár horft sérstaklega til þess hvernig fyrirtæki nýta upplýsingatækni við þróun nýjunga.
Í umsögn dómnefndar segir að Samskip hafi lagt áherslu á notendavænt viðmót frá upphafi til enda. Hannaður hafi verið vefur, í samstarfi við fyrirtækin Okapion og COOLprofs, þar sem viðskiptavinir Samskipa geti á einfaldan hátt bókað, fylgst með, og stjórnað sendingum sínum. Notendaviðmótið sé lipurt og þægilegt, jafnt fyrir viðskiptavini og starfsmenn.
OutSystems hrósa nálgun Samskipa, en fyrirtækið líti á verkferla sem grunninn sem starfsemin byggi á. Mörg fyrirtæki gleymi að hafa í huga notendur þjónustu þeirra þegar nýjungar eru kynntar til sögunnar. „Nálgun Samskipa byggir á sterkum grunni með áherslu á verkefni, straumlínulagaða verkferla og notagildi nýrra forrita og ferla,“ segir í umsögn.
„Þessi viðurkenning á áherslu okkar að bjóða notendavæna þjónustu gleður okkur mjög,“ sagði Ragnar Þór Ragnarsson, framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Samskipa. „Hjá Samskipum leggja allir mjög hart að sér við að gera upplifun viðskiptavina eins ánægjulega og hægt er og við hlökkum til að hleypa af stokkunum nýjum þjónustuvef okkar snemma árs 2018.“
OutSystems Technical Innovation Awards veita verðlaun í fjölda flokka. Sigurvegarar í hverjum flokki eru valdir með hliðsjón af áhrifum nýjunga sem kynntar hafa verið til sögunnar hjá fyrirtækjunum og mælanlegs ávinning sem fenginn er með notkun upplýsingatækni.