Samskip skrifa undir yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum

Samskip eru eitt þeirra fyrirtækja sem í dag skrifa undir yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum sem verður afhent á alþjóðlegu loftslagsráðstefnunni sem haldin verður í París í desember.

Yfirlýsingin er í anda stefnu fyrirtækisins um að bjóða umhverfisvænar heildarlausnir í flutningum.

Í yfirlýsingunni segir að helsta áskorun íslenskra fyrirtækja séu mengandi samgöngur og losun úrgangs. Samskip hafa lagt aukna áherslu á þessa málaflokka á síðustu árum. Reglulegar mælingar á árangri fyrirtækisins hér innanlands verða gerðar sýnilegar í samræmi við yfirlýsinguna.

Samskip leggja mikla áherslu á að draga eins og kostur er úr brennslu jarðefnaeldsneytis meðal annars með því að nota sparneytnari ökutæki og þróa nýjar flutningsleiðir og hefur m.a. verið í fararbroddi í innleiðingu á umhverfisvænum flutningalausnum um alla Evrópu.

Strandsiglingar Samskipa hafa þegar dregið töluvert úr umferð flutningabíla um þjóðvegi landsins. Fyrirtækið hefur einnig unnið markvisst að því að draga úr umferð flutningabíla í Evrópu með því að bjóða umhverfisvænni flutningalausnir þar sem vara er flutt með lestum, skipum og flutningaprömmum þar sem því verður við komið (e. multimodal transport).  

Samanburður hefur leitt í ljós að með þessari aðferð má draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um sem nemur 107.500 kílóum fyrir hvern gám á ársgrundvelli. Það jafngildir brennslu á 46.000 lítrum af olíu eða árlegri orkunotkun 10 meðalheimila í Evrópu. Í hópi viðskiptavina Samskipa sem nýta sér þennan flutningsmáta  í Evrópu má nefna hollenska bjórframleiðandann Bavaria, Heinz og  framleiðanda Mars og Snickers súkkulaðisins í Evrópu.

Fyrr á þessu ári fengu Samskip hin virtu „Containerisation Award“ auk umhverfisverðlauna bresku flutningasamtakanna BIFA fyrir áherslur félagsins í umhverfismálum.