Samskip útnefnd Menntafyrirtæki ársins

Samskip voru  í dag útnefnd Menntafyrirtæki ársins 2014. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi verðlaun eru veitt og voru fjögur fyrirtæki tilnefnd. Auk Samskipa voru Isavia, Landsbankinn og RioTinto Alcan á Ísland tilnefnd. 

Samskip voru  í dag útnefnd Menntafyrirtæki ársins 2014. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi verðlaun eru veitt og voru fjögur fyrirtæki tilnefnd. Auk Samskipa voru Isavia, Landsbankinn og RioTinto Alcan á Ísland tilnefnd. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin á Hilton Reykjavík Nordica, þar sem fram fór Menntadagur atvinnulífsins. Þetta er í fyrsta skipti sem ólíkar atvinnugreinar halda sameiginlegan Menntadag. Samtök atvinnulífsins standa að deginum ásamt aðildarfélögum sínum, LÍÚ, SVÞ, SF, SFF, SI, Samorku og SAF.

Í umfjöllun um þau fyrirtæki sem tilnefnd voru sagði; „Tilnefnd fyrirtæki leggja öll áherslu á mikilvægi menntunar og hafa skýra mennta-og fræðslustefnu sem er fylgt eftir. Við mat á tilnefningum voru gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækjanna og aukið samkeppnishæfni þeirra.“

Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa;

„Þetta er mikill heiður og um leið viðurkenning á því góða starfi sem unnið hefur verið á þessu sviði hjá Samskipum. Við leggjum mikla áherslu á mennta- og fræðsluþáttinn innan fyrirtækisins en það er að sjálfsögðu alltaf mikils virði að fá viðurkenningu fyrir það starf sem unnið hefur verið og um leið staðfestingu á því að við séum á réttri braut. Við vorum tilnefnd ásamt mjög öflugum fyrirtækjum sem allir geta litið upp til. Það eitt og sér er mikill heiður en að dómnefnd skuli hafa valið Samskip sem framúrskarandi félag er okkur öllum mikils virði.“

Auður Þórhallsdóttir fræðslustjóri Samskipa;

„Samskip hafa lagt sig fram í menntunarmálum og metnaðarfull fræðslustarfsemi hefur verið við lýði hjá fyrirtækinu. Það er okkur öllum hvatning að fá viðurkenningu af þessu tagi og ekki síst í ljósi þess hversu mikil breiðfylking úr íslensku atvinnulífi stendur að þessum degi. Þessi heiður sem Samskipum er sýndur í dag verður án efa grundvöllur þess að við munum kappkosta að gera enn betur.“

 

Nánari upplýsingar veitir Auður Þórhallsdóttir Fræðslustjóri í síma 458-8352   

Sjá ennfremur link á myndbrot þar sem glögglega má átta sig á út á hvað mennta- og fræðslustefna Samskipa gengur út á; http://www.samskip.is/um-samskip/frettir/nr/282