Sjá smáskot fyrir sumarið

„Við höfum séð dálitla aukningu í innflutningi núna í byrjun sumars, þó svo að í heild sé rólegra yfir en á síðasta ári. Fyrirtækin virðast vera að taka inn fyrir sumarið,“ segir Gísli Kristjánsson, viðskiptastjóri innflutnings hjá Samskipum. 

Hann segir sér virðast sem að jafnvægi sé að komast á innflutning eftir stöðuga aukningu undangengin þrjú ár. Þróunin endurspegli aðrar hagtölur, svo sem fregnir um að framan af ári hefði dregið verulega úr fjölgun ferðamanna hingað til lands.

„Svo er þetta líka búinn að vera óvenjumikill stígandi síðustu þrjú ár.“

Innflutningur er að hluta til árstíðabundinn, svo sem vegna þess þegar verktakar flytja inn vinnutæki fyrir háannatímann yfir sumarið og eins bændur sínar vinnuvélar, heyvinnutæki og traktora. „Og það búið að vera í gangi,“ segir hann, en framan af ári hafi verið rólegra yfir innflutningnum en á síðasta ári. „Við höfum til dæmis séð einhvern samdrátt í bílainnflutningi, en það er að koma smáskot núna fyrir sumarið, áður en hægir á aftur þegar líður á sumarið.“

En þótt hægi á einum vígstöðvum segir Gísli það alls ekki þýða að menn sitji með hendur í skauti í innflutningnum. „Þá erum við bara á fullu úti á örkinni að afla nýrra viðskipta.“

100-9069BBO7-web

MYND: Á hafnarbakkanum.