Svala – Nýtt og fullkomið athafnasvæði fyrir umsýslu við fisk

Þótt ekki sé búið að taka Svölu í formlega notkun er þegar unnið þar nótt jafnt sem nýtan dag. Svala er kæligeymsla fyrir saltfisk og rúmgott athafnasvæði fyrir ferskan fisk.

Aðstaðan markar straumhvörf, bæði fyrir viðskiptavini Samskipa og starfsfólk.

Frá miðnætti og fram eftir nóttu koma flutningabílar Landflutninga einn af öðrum hlaðnir fiskikörum að Svölu. Farmurinn er fiskur sem bátar komu með til hafna víðs vegar um landið síðdegis og kaupendur á suðvesturhorninu þurfa árla morguns sem hráefni í fiskvinnslur sínar. Fiskbúðirnar bíða einnig spenntar eftir ferskum fiski í réttina sem bíða neytandans strax við opnun.

Það lætur nærri að um 300 tonn af ferskum fiski komi í Svölu að næturlagi með bílum Landflutninga. Vaskir lyftaramenn bíða þeirra og tæma þá nánast á augabragði og flokka körin eftir kaupendum. Þegar líður á nóttina eru flutningabílar Landflutninga lestaðir að nýju og þeir dreifa fiskinum til kaupenda. Oft leggja fyrstu bílar af stað frá Svölu um klukkan þrjú, því flestir kaupendur vilja fá fiskinn sinn fyrir klukkan sex að morgni, áður en vinnsla hefst í húsunum.

 

Heilmikið hagræði

Gunnar Kvaran, forstöðumaður útflutningsdeildar Samskipa, segir heilmikil þægindi fólgin í því að vera með þessa starfsemi í eigin húsnæði. „Áður fengum við inni með þessa umsýslu hjá fiskmarkaðnum í Hafnarfirði en því fylgdi ákveðið óhagræði og kallaði á meiri akstur flutningabíla um höfuðborgarsvæðið. Þannig má segja að Svala einfaldi umsýsluna með karafiskinn verulega og geri starfsemina um leið umhverfisvænni, því vegna þessarar nýju aðstöðu dregur verulega úr akstri flutningabílanna okkar um höfuðborgarsvæðið, útblástur dregst saman og minna slit verður á gatnakerfinu.”

Allri starfsemi með karafiskinn í Svölu er lokið á morgnanna. Þegar dagvaktin mætir til starfa klukkan átta er varla hægt að sjá að þar hafi hundruð tonna af fiski haft viðdvöl um nóttina. Allt er tandurhreint en áfram er unnið með fisk en nú fisk sem Samskip flytja til kaupenda erlendis, ýmist saltfisk eða ferskar afurðir. Það eru því heilmikil verðmæti sem hafa viðdvöl í Svölu. Húsnæðið og 4.000m² vinnusvæði utan þess henta vel til að fylla frysti- og kæligáma af verðmætri útflutningsvöru.

Fullbúið skoðunarherbergi

„Svala er um 900 m² og inn af vinnslusvæðinu er nýr 300m² kælir fyrir saltfisk en það er nánast tvöföldun á saltfiskkælum fyrirtækisins því enn er annar 400m² saltfiskkælir í fullri notkun og það veitir ekki af plássinu“ segir Gunnar Kvaran og bætir því við að Svala hafi að stórum hluta verið hönnuð í samvinnu við viðskiptavini Samskipa „og nú getum við boðið þeim upp á víðtækari þjónustu en áður. Nú er verið að innrétta fullbúið skoðunarherbergi í Svölu, þar sem viðskiptavinir okkar geta skoðað gæði vörunnar og ástand fisksins áður en hann er fluttur úr landi. Þessa þjónustu kunna viðskiptavinir okkar að meta og aðstaðan í Svölu skapar sóknarfæri fyrir okkur.“ segir Gunnar Kvaran, forstöðumaður útflutningsdeildar Samskipa.