Uppfærð reglugerð ESB · ICS2

Nýlega er búið að innleiða uppfærslu á reglugerð ESB, sem heitir ICS2 (Import Control System 2). 

Í uppfærslunni eru gerðar auknar kröfur um upplýsingaskyldu sjóflutningsaðila í flutningum til og í gegnum aðildarlönd ESB. Þessi uppfærsla hefur áhrif á íslensk fyrirtæki sem flytja vörur til og í gegnum aðildarlönd ESB. Fyrirtæki þurfa nú að veita nákvæmari upplýsingar um vörusendingar og með tímanlegum hætti áður en varan er flutt úr landi. 

Innleiðing ICS2 hófst árið 2021 og hefur í þremur áföngum náð til mismunandi tegunda vörusendinga og flutningsleiða. Krafan um fyrirfram upplýsingagjöf nær nú þegar til allra vörusendinga sem fara með flugi. Þriðji og síðasti áfanginn tók gildi 3. júní sl., sem hefur í för með sér að þessi upplýsingakrafa nær nú einnig til farmflutninga á sjó. Aðlögunartími er gefinn til 4. desember 2024. 

Hvaða áhrif hefur þetta á viðskiptavini Samskipa?
Auknar kröfur eru um að upplýsingar berist með flutningsfyrirmælum áður en sending fer frá Íslandi:

· Tollskrárnúmer (HS-kóði): Upplýsingar um fyrstu sex stafi tollskrárnúmers (HS-kóða), sem er samræmt vörulýsingar- og vörunúmeraskrá Tollasamvinnuráðs (WCO). HS-kóða þarf að skrá í þeim tilfellum þar sem uppskipunarhöfn er í ESB-landi (sjá lista hér fyrir neðan). 
· EORI númer (Economic Operator Registration and Identification): EORI númer er útgefið af tollayfirvöldum í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Allir innflytjendur í aðildarlandi ESB eru skyldugir að hafa EORI númer. Athugið að EORI númer er ekki útgefið hér á landi og því eru fyrirtæki á Íslandi ekki með EORI númer.
· Upplýsingar um seljanda og kaupanda þegar loka afhendingarstaður vöru er innan ESB, það er nafn, heimilisfang og EORI númer eða annað auðkenningarnúmer s.s. kennitala fyrir íslensk fyrirtæki.

Hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér ef upplýsingunum er ekki skilað á réttum tíma?
· Vörusendingin stöðvast og tafir verða á landamærum.
· Vörurnar sem um ræðir verða ekki tollafgreiddar.
· Tollskýrslur sem innihalda ófullnægjandi upplýsingar verður synjað og sumum tilfellum geta verið viðurlög þegar ekki er farið eftir tilskildum ákvæðum.

      Til hvaða Samskipa hafna þarf að skila inn auknum upplýsingum?
      · Rotterdam, Holland
      · Árósar, Danmörk
      · Cuxhaven, Þýskaland
      · Gautaborg, Svíþjóð

      Hvernig er best fyrir viðskiptavini Samskipa að nýta undirbúningstímabilið sem best?
      Á undirbúningstímabilinu er gott að hafa samband við kaupendur innan ESB og fá upplýsingar um EORI númer þeirra. Einnig er gott að kynna sér hvaða HS-kóðar eiga við um þær vörur sem viðskiptavinir eru að flytja úr landi.  

      Hvernig styður Samskip við sína viðskiptavini?
      Þessar breytingar geta virkað krefjandi en starfsfólk Samskipa eru tilbúin að styðja viðskiptavini í hvívetna og leiðbeina þeim í gegnum breytinguna. Viðskiptavinir sem hafa einhverjar spurningar eða vangaveltur er velkomið að hafa samband við sína viðskiptastjóra.

      Samskip vinnur nú að uppfærslum á tölvukerfum sínum til að uppfylla kröfur ICS2 til að auðvelda viðskiptavinum að skila inn nauðsynlegum upplýsingum og tryggja að allar nauðsynlegar upplýsingar skili sér tímanlega til yfirvalda í aðildarlöndum ESB og mun Samskip síðar senda nánari upplýsingar um þær breytingar og tímasetningar.    

      Saman náum við árangri!  
      Samskipa teymið.