Útblástur sjóflutninga Samskipa hefur minnkað um 35% á fimm árum

Um mikilvægi vöruflutninga milli landa verður illa deilt enda forsenda alþjóðaviðskipta. Um leið er ljóst að starfsemin mengar. Í nýlegri umfjöllun Horizon, rits Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun, um nýja eldsneytisgjafa í skipaflutningum, kemur fram að þrjú prósent útblásturs gróðurhúsalofttegunda megi rekja til sjóflutninga.

Sjóflutningur annast 90 prósent viðskipta með vörur milli landa og því eðlilega horft til geirans um að bregðast við til að draga úr kolefnisfótspori sínu. Í þeim efnum hafa Samskip og Evrópusambandið átt vissa samleið, bæði vegna sérstakrar áherslu Samskipa á að draga úr útblæstri og eins vegna þess hvernig fjölþátta flutningskerfi Samskipa hafa stutt markmið Evrópusambandsins um að færa vöruflutninga í auknum mæli af þjóðvegum í flutningsmáta sem menga minna.

Einhverjum kann að þykja sem þrjú prósent séu engin ósköp, en um leið þarf að horfa til þess að eftirspurn eftir flutningum fer vaxandi og því hefur útblástur frá sjóflutningum aukist hraðar en aðrir geirar.

Samskip hafa einsett sér að minnka kolefnisfótspor sitt og raunar hefur þegar margt unnist í þeim efnum og sjálfbærni samofin kjarnastefnu fyrirtækisins. Við viljum leiða þessa þróun og höfum sett okkur metnaðarfullt markmið um að ná kolefnishlutleysi í rekstrinum fyrir 2040, um áratug fyrr en almennt gerist í  okkar geira.

Við teljum okkur hafa náð góðum árangri, en á fimm árum hefur útblástur frá skipaflutningum Samskipa til og frá Íslandi dregist saman um 35,1 prósent og frá 2020 hafa Samskip minnkað kolefnisfótspor sitt um 10,4 prósent.

Á vef Samskipa hefur svo frá 2017 verið aðgengileg kolefnisreiknivél svo bera megi saman kolefnisfótspor fjölþátta flutningskerfis fyrirtækisins við aðra flutningsmáta. Með gagnsæi auðveldum við upplýsta ákvarðanatöku þar sem hagur umhverfisins er hafður að leiðarljósi. Í árangri Samskipa endurspeglast markvissar aðgerðir og undirstrikar að við leggjum okkur fram um að tryggja sjálfbærni til langs tíma.

Samskip horfa líka til orkuskipta og bæði fylgjast með og taka virkan þátt í framþróun á því sviði, svo sem með smíði tveggja vetnisknúinna flutningaskipa til notkunar á skemmri siglingaleiðum í Evrópu. Þá markaði árið 2021 tímamót hjá Samskipum þegar hafin var notkun lífeldsneytis í sjóflutningum. Fyrsta kastið voru tvö skip knúin lífeldsneyti og á síðasta ári fjölguðum við þeim í fjögur. Nú er svo komið að lífeldsneyti stendur undir fjórðungi heildareldsneytisnotkunar Samskipa.

Með notkun lífeldsneytis hafa Samskip forðað útblæstri meira en ígildis 50.000 tonna af CO2. Skipin sem ganga fyrir lífeldsneyti leggja mikið til sjálfbærnimarkmiða Samskipa, en tvö þeirra sigla til Íslands. Til að setja árangurinn sem náðst hefur með notkun þeirra í samhengi má benda á að útblásturinn sem þau hafa forðað jafngildir útblæstri 192.800 bílferða hringinn í kring um Ísland.

Á þessu ári ætlum við líka að auka enn frekar notkun lífeldsneytis og minnka með því kolefnisfótsporið enn meira. Gert er ráð fyrir að lífeldsneyti verði um 30% af heildareldsneytisnotkun skipaflota Samskipa 2023.

Miklu máli skiptir að allir leggist á eitt í viðleitni til að draga úr útblæstri frá flutningastarfsemi, því starfsemin er mikilvæg gangverki heimsins alls. Þá skiptir líka máli að mælingar séu samræmdar en Samskip hafa skuldbundið sig til markmiðasetningar sem byggir á bestu vísindalegu gögnum og alþjóðlegum stöðlum. Með því að bæta stöðugt getu okkar mælinga- og umhverfisbókhalds ætlum við að vera í fararbroddi í sjálfbærri þróun og vera um leið hreyfiafl breytinga í þágu umhverfisins í flutningageira.

Höfundur: 
Þórunn Inga Ingjaldsdóttir,  forstöðumaður Markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Útdráttur: 
„Með notkun lífeldsneytis hafa Samskip forðað útblæstri meira en ígildis 50.000 tonna af CO2. Skipin sem ganga fyrir lífeldsneyti leggja mikið til sjálfbærnimarkmiða Samskipa, en tvö þeirra sigla til Íslands.