Samskip stór þáttur í einu stærsta orkuskiptaverkefni á Íslandi
Samskip ásamt fjórum öðrum íslenskum fyrirtækjum hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á vetnisknúnum MAN hTGX vöruflutningabílum. Um er að ræða dráttarbíla af stærstu gerð, 44/49 tonn. Orka náttúrunnar (ON) framleiðir á Hellisheiði vetni til að knýja bílana og Blær Íslenska vetnisfélagið dreifir því. Með þessu sameinast framleiðandi og innflytjandi bílanna, viðskiptavinir og fyrirtækin sem framleiða og dreifa orkugjafanum um eitt stærsta orkuskiptaverkefni á Íslandi og í kjölfarið verða tímamót í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á landi.
Unnið hefur verið að samningum um innflutning bílanna og viljayfirlýsingu um kaup á þeim undir verkstjórn Íslenskrar NýOrku í um 18 mánuði, en Íslensk NýOrka var stofnuð 1999 í tengslum við viljayfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um að stefna að nýtingu endurnýjanlegra orkubera til samgangna.
Áhersla á sjálfbærni er innbyggð í kjarnastefnu Samskipa
Gísli Þór Arnarson framkvæmdastjóri innanlandssviðs Samskipa:
„Áhersla á sjálfbærni er innbyggð í kjarnastefnu Samskipa og afskaplega ánægjulegt að vera í hópi þeirra fyrirtækja sem taka þetta mikilvæga skref í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á landi. Til að árangur náist þarf að tryggja bæði framboð og samkeppnishæfni orkugjafans við jarðefnaeldsneyti og leggjumst við á árar með viðleitni til þess með því að taka þessar bifreiðar í notkun.“
Skrifað var undir viljayfirlýsinguna um kaup á bifreiðum í Hellisheiðarvirkjun þar sem vetnisframleiðsla ON fer fram mánudaginn 29.apríl að viðstöddum Guðlaugi Þór umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, blaðamönnum og öðrum gestum. Kraftur er umboðsaðili MAN á Íslandi, en fyrirtækin sem kaupa fyrstu bílana eru BM Vallá, Colas, MS, Samskip og Terra. Í tengslum við kaupin á bílunum byggir Blær nýja vetnisstöð sem veitt getur bæði vörubílum og fólksbílum þjónustu.
20 dráttarbílar jafnast á við þúsund fólksbíla
Kraftur hefur tryggt sér til afhendingar 20 bíla, til afhendingar á næsta og þarnæsta ári. Fyrstu bílarnir eru væntanlegir vorið 2025. Vonir standa til að fleiri fyrirtæki kjósi að taka í notkun losunarfría vörubíla af stærstu gerð. Á árinu 2025 eru bílarnir aðeins fáanlegir í svokallaðri 6:2=2 útgáfu (8 hjóla) en 6:4 (10 hjóla) trukkurinn verður til afhendingar frá upphafi árs 2026. Um er að ræða bíla með brunahreyfli sem ganga fyrir vetni og öll umhirða og viðhald því sambærilegt við bifreiðar sem fyrirtæki hafa fyrir í rekstri. Í fyrstu verða framleiddir að minnsta kosti 200 bílar sem seldir verða í Þýskalandi, Hollandi, Noregi og Íslandi, auk valdra markaða utan Evrópu.
Drægni þessara bíla er allt að 600 kílómetrar sem gerir þá samkeppnishæfari við hefðbundna vörubíla knúna dísil. Vörubílar af þessari stærðargráðu eru með þeim ökutækjum sem nota mest eldsneyti og aka langar vegalengdir á ári hverju. Orkuskipti í þungaflutningum hafa því gríðarleg áhrif og vega þungt í samdrætti losunar á Íslandi.
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku
„Hér er um að ræða eitt stærsta einstaka orkuskiptaverkefnið í sögu þjóðarinnar. Eldsneytisnotkun 20 dráttarbíla jafnast á við ríflega þúsund fólksbíla og áætla má árlegan sparnað af bruna 700 þúsund lítra af dísilolíu. Með innflutningi bílanna og kaupum á þeim er stórt skref stigið í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á Íslandi.