Skilmálar farmbréfa Innanlandsflutninga

Hér er að finna skilmála farmbréfa innanlandsflutninga.

1. Um landflutninga gilda, auk þessara skilmála, flutningssamningar milli aðila, ákvæði landflutningalaga nr. 40/2010 og flutningsskilmálar Samskipa (fyrir fjölþáttaflutning og flutning frá höfn til hafnar), eins og þeir eru á hverjum tíma, eftir því sem við á.

2. Um sjóflutninga gilda, auk þessara skilmála, flutningsskilmálar Samskipa (fyrir fjölþáttaflutning og flutning frá höfn til hafnar),  eins og þeir eru á hverjum tíma, flutningssamningar milli aðila og ákvæði siglingalaga nr. 34/1985, eftir því sem við á.

3. Almennir þjónustuskilmálar flutningasviðs SVÞ (Samtaka verslunar og þjónustu) og aðrir viðeigandi skilmálar, eins og þeir eru á hverjum tíma, skulu gilda um alla þjónustu sem farmflytjandi veitir viðskiptamanni, eftir því sem við á, nema um annað sé samið.

4. Með afhendingu farms til farmflytjanda og/eða útfyllingu og afhendingu farmbréfs (fylgibréf/farmskírteini) til farmflytjanda, hvort sem það er gert bréflega eða með rafrænum hætti, staðfestir viðskiptamaður að hann hafi kynnt sér umrædd lög og skilmála og að hann samþykki að þau og skilmálar farmbréfsins gildi um réttarsamband aðila.

5. Farmflytjandi hefur móttekið frá viðskiptamanni tilgreindan fjölda eða magn pakka, bretta, gáma eða annarra eininga, eftir því sem séð verður í góðu lagi og ástandi, sem viðskiptamaður segir innihalda viðkomandi vöru. Þar sem farmflytjandi hefur ekki færi á að kanna innihald nefndra pakka, bretta, gáma eða annarra eininga hefur farmflytjandi ekki kannað hvort upplýsingar um innihald séu réttar.

6. Sendandi ber ábyrgð á því að þær upplýsingar sem tilgreindar eru í farmbréfi og merkingu vöru séu réttar. Hann er ábyrgur fyrir kostnaði og tjóni sem hlýst af því að upplýsingarnar eru rangar, ónákvæmar, ógreinilegar eða að öðru leyti ófullkomnar.

7. Sendanda ber að sjá til þess að ástand, frágangur og pökkun vörunnar sé með þeim hætti að hún þoli umsaminn flutning og að farmflytjandi geti auðveldlega og örugglega fermt hana um borð í ökutæki, vagn eða gám, flutt hana og affermt.

8. Sendanda ber að skýra sérstaklega frá því og merkja vöruna ef hún þarfnast sérstakrar umönnunar eða gætilegrar meðferðar, s.s. er varðar brothættu, hitaþol eða vegna hættueiginleika hennar.

9. Farmflytjandi hefur haldsrétt í vöru vegna alls þess kostnaðar sem myndast vegna flutnings þar til gjöldin hafa verið greidd.

10. Farmflytjandi ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á hvers konar tjóni á lifandi dýrum eða tjóni á vöru sem búið er að hlaða í gám þegar gámur er afhentur farmflytjanda til flutnings, eða tjóni sem rekja má til fermingar og/eða affermingar ökutækis, vagns eða gáms þegar sendandi, móttakandi eða eigandi vöru sjá um fermingu og/eða affermingu ökutækis, vagns eða gáms, eftir því sem við á.

11. Skaðabætur vegna skemmda eða ef vara glatast skal ákvarða eftir verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi að viðbættum flutningsgjöldum. Farmflytjandi greiðir þó aldrei hærri skaðabætur en sem nemur 12,5 SDR fyrir hvert kíló vöru sem skemmist.

12. Sé um að ræða sjóflutning/fjölþáttaflutning verður farmflytjanda aldrei gert að greiða hærri skaðabætur vegna skemmda eða taps á vöru en sem nemur hámarksbótum siglingalaga, nr. 34/1985, sem eru 667 SDR fyrir hvert stykki eða flutningseiningu eða 2 SDR fyrir hvert brúttókíló vöru sem skemmist eða glatast, hvort sem hærra er, nema framangreindar hámarksbætur siglingalaga séu hærri en hámarksbætur landflutningalaga, en í slíku tilviki skulu ákvæði landflutningalaga gilda.

13. Farmflytjandi ber ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á óbeinu eða afleiddu tapi, skemmdum eða kostnaði eða ágóðatapi. Farmflytjandi ber heldur ekki ábyrgð á beinu, óbeinu eða afleiddu tjóni eða skemmdum sem orsakast vegna tafa eða seinkana.

14. Ekki skal koma til vaxta af neinni kröfu á hendur farmflytjanda fyrr en frá uppkvaðningu dóms.

15. Öll deilumál sem kunna að rísa vegna flutnings samkvæmt samningum, farmbréfum og skilmálum Landflutninga, og/eða önnur deilumál milli aðila, skulu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.