80 sumarstarfsmenn til Samskipa

Fjöldi ungmenna hefur verið ráðinn í sumarstörf til Samskipa á flestar starfsstöðvar og koma mörg þeirra ár eftir ár. 

„Nú í sumar eru það um 80 ungmenni sem hafa náð 18 ára aldri sem koma til starfa hjá Samskipum og sum þeirra eru að koma jafnvel þriðja eða fjórða árið í röð. Störfin eru afar fjölbreytt en flest eru ráðin í vörumiðstöðina þó við ráðum einnig sumarfólk á flestar aðrar starfsstöðvar og einnig á landsbyggðina. Einnig er nokkuð um að háskólanemar, sem unnið hafa verkefni hér í sínu námi eða verið í starfsnámi, sæki um að vinna hjá okkur á sumrin“ sagði Auður Þórhallsdóttir mannauðsráðgjafi hjá Samskipum.

„Allir nýliðar fara á nýliðanámskeið þar sem fyrirtækið er kynnt og mikil áhersla er lögð á öryggisfræðslu. Einnig fá allir nýliðar „mentor“ sem heldur utan um þjálfun þeirra. Mikilvægt er að við þjálfun nýliða sé bæði lögð áhersla á að auka færniþátt starfsmanna, jafnframt því að rækta vel hvernig nýliðinn fellur í hópinn, hvort hann eignist trausta vinnufélaga og að honum líði vel í vinnunni“ sagði Auður.

Gerðar eru miklar kröfur til þekkingar starfsfólks í ólíkum þáttum s.s. öryggismálum, umhverfismálum, þjónustu, vörumeðhöndlun og gæðaeftirliti. „Við erum mjög meðvituð um nauðsyn og mikilvægi þess að sumarstarfsmenn sem og aðrir kunni réttu handtökin til að skila góðu dagsverki.“

„Við erum heppin með sumarstarfsmenn og gaman að sjá hversu margir koma til okkar ár eftir ár. Í hópnum eru líka mörg börn starfsmanna eða hafa einhver tengsl við okkur og þekkja til Samskipa. Við leggjum ríka áherslu á að réttinda- og öryggismálin séu í lagi svo stór hópur fer einnig á vinnuvélanámskeið sem haldið er hér á vinnustaðnum og kostað af Samskipum“ sagði Guðmundur Lúther Loftsson rekstrarstjóri hjá Samskipum.