Á vélaverkstæðinu geta farið hundrað lítrar í olíuskipti á lyftara

​​Arnar Þorsteinsson er mörgum hjá Samskipum kunnugur enda hefur hann starfað hjá fyrirtækinu í um 16 ár samtals en hann byrjaði 1999 á Arnarfellinu og var þar í sex ár áður en leiðin lá á vélaverkstæði Samskipa. Arnar hefur nýtt tímann vel því hann er virkur í félagslífi starfsmanna, tekur þátt í hjólreiðahópnum, mætir í ræktina og á pub quiz, bjórkvöld og aðra starfsmannaviðburði. 

Við fengum að heyra í honum til að kynnast honum og vinnunni á vélaverkstæðinu nánar. 
„Mitt daglega starf er fyrirbyggjandi viðhald og þjónustuskoðanir, olíu- og síuskipti og fleira slíkt á öllum tækjunum sem eru ekki á númerum. Þetta eru mafíurnar, kranarnir og ýmislegt fleira sem kemur inn til okkar í fyrirbyggjandi viðhald. Við erum með aðstöðu til að taka stóru lyftarana inn og við tökum reyndar allar grindurnar í skoðunaryfirferð svo þær séu klárar fyrir þjóðvegina." 

Vélaverkstæðið notast við beiðnakerfi og tækin koma þá inn tiltölulega jafnt og þétt yfir árið til þjónustu en fyrirbyggjandi viðhald er lykillinn að áreiðanleika í þjónustu tækjanna. „Þetta getur verið fjölbreytt. Það fara 40 lítrar af olíu á lyftara á 500 tíma fresti og 60 lítrar á skiptinguna á 1000 tíma fresti. Það samsvarar yfirleitt þriggja til sex mánaða notkunar. Það veitir heldur ekkert af því að skipta um olíu- og loftsíur því ef þessu er ekki sinnt vandlega þá fáum við þetta bara í hausinn."

20181207_130935
Arnar segir að þau séu sex sem starfi á vélaverkstæðinu, Arnar er einn í gryfjunni, þrír aðrir í viðhaldi og tveir á skrifstofunni. Góður andi sé í vinnunni en verkin séu mis krefjandi. 
„Kranarnir eru mikil vinna sem fer oft í helgarnar. Það að skipta um glussalagnir, tjakka í bómunni og annað viðhald er tímafrekt á þessum stóru tækjum. Þau eru í góðu viðhaldi þessi tæki hjá okkur. Svo er alltaf rennerí af bílum, fá rúðupiss, olíu, perur og slíkt svo öll tæki séu alltaf í góðu standi."

Mafíugrindurnar eru félaginu mikilvægar eins og Mafíurnar sjálfar sem eru fjórhjóladrifnar en Mafíurnar, fyrir þá sem ekki eru innvígðir, eru gámadráttarvélarnar á gámasvæðinu. „Þessi tæki þurfa að vera á góðum dekkjum enda aðstæður mismunandi hér á svæðinu" segir Arnar. Hann segir jafnframt að hans upplifun sé sú að almennt sé góð umgengni um tækin á svæðinu og að sumir gangist mjög upp í því að hafa sem snyrtilegast á sínum vinnutækjum. 

Áhugamálin tengjast vinnunni

Spurður um áhugamál segir Arnar að hann sé með jeppadellu og stundi sjósund. Það tengist því hvorutveggja vinnunni á sinn hátt. „Eftirminnilegustu jeppaferðirnar eru þær erfiðustu. Ferð ein 2013 var í 30 gráðu frosti á Vatnajökli þar sem við þurftum að skilja eftir 18 bíla af 80 í vonskuverði. Fyrstu bílarnir sem stoppuðu voru bílarnir með snorkel því loftsían fylltist bara af snjó. Það kom ótti að mönnum við þessar aðstæður, var sent út neyðarkall og hvaðeina þannig að þetta vakti ekki neina rosa kátínu hjá sumum." Arnar þurfti ekki að skilja sinn jeppa eftir enda hefur hann væntanlega búið að reynslu sinni af vélaverkstæðinu og kunnað að undirbúa sinn bíl fyrir erfiða langferð.20181207_13113

Ég mæti á alla viðburði sem boðið er á og það mætti vera enn meira. Það var vel heppnað bjórkvöldið um daginn. Það væri gaman að fá pub quiz aftur, það var í Rúgbrauðsgerðinni einu sinni. Keilan var líka skemmtileg tilbreyting. Ég held að allt sem sé einfalt virki fínt og sé skemmtilegt.

Arnar segist una sínum hag vel, líði vel í vinnunni og það sé stór plús að hægt sé að fá flutning innan fyrirtækisins ef fólk vilji prófa eitthvað annað. Það sé líka plús að Samskip sé stórt fyrirtæki og öruggur vinnustaður og það skipti alltaf máli í íslensku samhengi.