„Ævintýralega skemmtileg og erfið ferð framundan“

Róðrarkapparnir fjórir sem ætla að róa yfir Atlantshafið á Auði, sérstökum úthafsróðrarbát, eru nú á leið til Orkneyja en það er fyrsti viðkomustaðurinn á leið þeirra frá Noregi til Íslands.

Róðrarkapparnir fjórir, Einar Örn Sigurdórsson, Eyþór Eðvarðsson, Kjartan Jakob Hauksson og Svanur Wilcox, sem ætla að róa yfir Atlantshafið á sérstökum úthafsróðrarbát, eru nú á leið til Orkneyja en það er fyrsti viðkomustaðurinn á leið þeirra frá Noregi til Íslands. Vegalengdin frá Sirivåg á suðvesturströnd Noregs þaðan sem þeir lögðu af stað á slaginu kl. 6 í morgun og til Orkneyja er 273 sjómílur í beinni línu. Meðalhraði bátsins er ca. 3 sjómílur á klukkustund sem er sambærilegt við röskan gönguhraða.

„Það er ævintýralega skemmtileg og erfið ferð framundan, það er ég sannfærður um“, sagði Kjartan J. Hauksson skipstjóri rétt fyrir brottför. „Norðursjórinn er með erfiðustu hafsvæðum og við eigum eftir að lenda í töluverðri ölduhæð. Langþráð bið eftir hagstæðum veðurskilyrðum er nú á enda en fyrir okkur skiptir meginmáli að öryggi okkar yfir hafið sé tryggt.“

Fylgjast má með staðsetningu Auðar hér og Facebook-síðu þeirra www.facebook.com/northatlanticrow og á vefnum þeirra www.northatlanticrow.com.

Ef ofurhugunum tekst ætlunarverk sitt að róa frá Noregi til Íslands kemst afrekið í heimsmetabók Guinness og munu fulltrúar Ocean Rowing Society fylgjast grannt með leiðangrinum. Leiðin sem áætlað er að róa er um 2000 km í beinni línu og hefur aldrei verið róin áður svo vitað sé.

Dorrit Moussaieff forsetafrú er verndari róðursins.

Ásamt því að setja heimsmet vill áhöfnin með þessari ferð draga fram áhugaverð atriði sem tengja Ísland við Noreg, Orkneyjar og Færeyjar. Í Orkneyjum hafa þeir fengið Tom Muir, einn helsta sagnamann Skota til liðs við sig, og munu þeir hafa sögustund og segja m.a. frá Orkneyingasögu sem var skrifuð af Íslendingum og sagt er frá í Flateyjarbók. Tengsl Íslands og Skotlands eru mjög áhugaverð og sem dæmi þá hafa DNA rannsóknir staðfest að íslenskar konur og færeyskar eru að mestu frá Skotlandi og Írlandi. Margir virtir fræðimenn telja að sagnamenning Íslendinga á víkingaöld eigi rætur að rekja til Skotlands og Írlands.

Orkneyingasaga er aðalheimildin um sögu Orkneyja, Hjaltlands og norðurhluta Skotlands, í þrjár og hálfa öld, og rekur einnig mikilvægan þátt í sögu víkingaaldarinnar. Þá voru Orkneyjar krossgötur þar sem fjölbreyttir menningarstraumar komu saman.

Örnefni á Orkneyjum bera þess merki að þar voru norrænir menn sem töluðu það tungumál sem í dag heitir íslenska. Eyjarnar allar bera íslensk nöfn og Kirkwall sem er höfuðborgin heitir Kirkjuvogur.  Á ferjunni sem siglir á milli eyjanna stendur á einum bátnum á tærri íslensku „Með lögum skal land byggja“.