Áhöfnin á Húna rokkar á Borgarfirði eystra

Áhöfnin á Húna hélt aðra tónleika sína á ferðinni í kringum landið í gærkvöldi.  Tónleikarnir voru haldnir á bryggjunni á Borgarfirði eystra og er áætlað að á milli 5 og 600 manns hafi komið þar saman.

Áhöfnin á Húna hélt aðra tónleika sína á ferðinni í kringum landið í gærkvöldi.  Tónleikarnir voru haldnir á bryggjunni á Borgarfirði eystra og er áætlað að á milli 5 og 600 manns hafi komið þar saman.

Fyrr um daginn var Áhöfninni fagnað á bryggjunni og boðið í ilmandi kjötsúpu þar sem ungir borgfirskir tónlistarmenn fóru á kostum.  Tónleikarnir hófust svo kl. 20.00.  Stemmningin var geysigóð þrátt fyrir norðanátt, þoku og rigningu sem gerði tónlistarmönnunum erfitt fyrir.  Menn létu það þó ekki á sig fá og rokkuðu í gegnum lög eins og Klettinn, Þyrnigerðið, Bankað, Beast og Hafið er svart.

Björgunarsveitarmenn í Sveinungum voru himinlifandi með aðsóknina enda fá þeir allan aðgangseyri.  Að afloknum tónleikum Áhafnarinnar á Húna hélt heimamaðurinn Magni Ásgeirsson ásamt félögum sínum sem kalla sig „The Hafþórs“ tónleika í félagsheimilinu Fjarðarborg.

Næsta stopp hjá Áhöfninni á Húna er Reyðarfjörður í kvöld og byrjar kvöldið á beinni útsendingu í sjónvarpinu á RÚV.  Útsendingin hefst kl. 19.35 og tónleikarnir í kjölfarið.

Í Áhöfninni á Húna eru þau Lára Rúnars, Mugison, Jónas Sigurðsson, Ómar Guðjónsson, Guðni Finnsson og Arnar Gíslason.

Hér er hægt að fylgjast með ferð Húna II kringum landið með vefmyndavél um borð.