Áhöfnum Arnarfells og Samskip Hoffells þakkað hugrekki og snarræði
Áhöfnum Arnarfells og Samskip Hoffells var í gær þakkað áræði og hugrekki þegar annars vegar kom upp eldur í vélarrúmi Arnarfells 5. janúar og hins vegar þegar Samskip Hoffell missti vélarafl 10. janúar með þeim krefjandi aðstæðum og tilheyrandi hættu eins og fram hefur komið.
Áhöfn Arnarfells var í gær þakkað fumleysi og áræði við erfiðar aðstæður þegar eldur kom upp í vélarrúmi skipsins þann 5. janúar sl. á leið sinni til Immingham á Bretlandseyjum. Það var Magnús Magnússon skipstjóri á Arnarfelli sem tók á móti viðurkenningu frá Pálmari Óla Magnússyni forstjóra Samskipa.
Við sama tækifæri var áhöfn Samskip Hoffells þakkað hugrekki og þrek við hættulegar og krefjandi aðstæður sem sköpuðust þegar skipið missti vélarafl á leið til Reykjavíkur þann 10. janúar sl. Var skipið staðsett um 160 sjómílur suðvestur af Færeyjum í afar slæmu veðri þegar bilunin kom upp og voru aðstæður áhafnar mjög erfiðar fyrir vikið. Það var Artem Chaykov, skipstjóri Samskip Hoffells, sem tók á móti viðurkenningunni frá Pálmari Óla forstjóra.
Á meðfylgjandi myndum má sjá áhafnir Samskip Hoffells og Arnarfells.