Allar leiðir Samskipa á sjó og landi eru opnar
Hér má sjá viðtal við Birki Hólm Guðnason forstjóra Samskipa sem birtist í Viðskiptamogganum þann 25.mars 2020.
Hér má sjá viðtal við Birki Hólm Guðnason forstjóra Samskipa sem birtist í Viðskiptamogganum þann 25.mars 2020.
Efla samskipti við skrifstofurnar
Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa, segir í skriflegu svari að allar flutningsleiðir Samskipa á sjó og landi séu opnar. „Við viljum þó benda viðskiptavinum okkar á að bóka tímanlega, því tafir hafa myndast við ákveðin landamæri. Með lengri fyrirvara aukast líkur á að teymið okkar finni leiðir sem gangi upp,“segir Birkir.
Hann segir að fyrirtækið hafi eflt samskipti sín við skrifstofur sínar um allan heim í þeim tilgangi að tryggja viðskiptavinum sem allra bestu þjónustu.
Huga að öryggi starfsfólks
Spurður að því hverjar væru helstu áskoranirnar fyrir skipafélag eins og Samskip í því ástandi sem skapast hefur, segir Birkir að þær séu að huga að starfsfólkinu og tryggja órofna starfsemi. Unnið hafi verið í því að minnka áhættu á að starfsfólkið smitist frá fyrstu dögum í marsmánuði. Mikil áhersla hafi verið lögð á að tryggja öryggi og órofna starfsemi á skipum sem og vöruhúsum og hafnarsvæðum strax í byrjun. „Núna ná aðgerðir okkar til allra starfsstöðva og starfsmanna okkar, en þær eru í stöðugri endurskoðun.“
Hann bætir við að Samskip sé háð þjónustu í höfnum erlendis og þar sé alltaf sá möguleiki fyrir hendi að starfsemi skerðist, eða hægist tímabundið vegna COVID-smita. „Við þurfum í auknum mæli að treysta á eigið starfsfólk varðandi viðhald á skipum og tækjum þar sem Samskip hafa takmarkað mjög svo aðgengi þjónustuaðila.“
Birkir segir að á sama tíma sé verið að takast á við áskoranir í rekstrinum, en þær felist í að reka fast-kostnaðar-framleiðslukerfi, þegar skyndilega verði umtalsverð magnminnkun, eins og líklega sé fram undan.
Spurður hvort fragt sem annars færi í flugi, leitaði til þeirra, segir Birkir ekki svo vera, enda er það magn sem flutt er með flugvélum aðeins lítið brot af því sem er flutt með skipum. Því verði skipaflutningar ekki mikið varir við magnsveiflur í flugi.
Fækkuðu um eitt skip
Um það hvort einstaka áfangastaðir eða siglingaleiðir hefðu orðið fyrir meiri áhrifum en aðrar vegna ástandsins, segir Birkir að eins og tilkynnt hafi verið um í síðustu viku, þá hafi verið gripið til tímabundinna aðgerða í siglingakerfinu til að bregðast við óvissunni sem fram undan er. „Við erum að fækka um eitt skip og breyta siglingaleiðum á öðrum skipum.“
Í nýrri siglingaáætlun sinna fjögur skip vöruflutningum á áfangastaði á landsbyggðinni og í Evrópu, en siglingar samkvæmt nýrri áætlun hefjast 6. apríl næstkomandi.
Sjá má greinina í heild sinni á mbl.is