Aurora gaf 28 sjúkrarúm til Síerra Leóne

Nýlega afhenti velgerðasjóðurinn Aurora spítalanum Princess Christian Maternity Hospital (PCMH), í austurhluta Freetown í Síerra Leóne, 28 sjúkrarúm fyrir hönd Sjúkrahússins á Akureyri. Samskip önnuðust flutning rúmanna.

Fram kemur á vef Aurora að starfsfólk PCMH, sem er stærsta ríkisrekna fæðingarsjúkrahúsið í Sierra Leóne, hafi verið einstaklega þakklátt fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Aðstæður á spítalanum eru sagðar bágbornar sökum skorts á fjármagni. Til dæmis er þar ekkert rennandi vatn.

Áður styrktu Aurora og Sjúkrahús Akureyrar spítalann með sjúkrarúmum árið 2017, en óskað hafði verið eftir frekari aðstoð ef mögulegt væri. „Okkur var það mikil ánægja að geta uppfyllt þá ósk núna,“ segir á vef sjóðsins. Þá kom yfirstjórn spítalans á framfæri miklum þökkum til Auroru velgerðasjóðs, Sjúkrahúss Akureyrar og til Samskipa, sem gerðu flutninginn mögulegan.

„Samskip styðja við margvísleg velgerðamál, en slíkur stuðningur er hluti af samfélagsábyrgðarstefnu fyrirtækisins. Það gleður okkur að hafa getað liðsinnt Aurora sjóðnum í stuðningi við Síerra Leóne og PCMH þar sem unnið er mikilvægt starf við erfiðar aðstæður,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.