Brexit fræðslufundur fyrir viðskiptavini Samskipa
Við hjá Samskipum ákváðum að bjóða hópi viðskiptavina í inn- og útflutningi og öðrum hagsmunaaðilum til hádegiskynningarfundar í húsakynnum Samskipa.
Birkir Hólm Guðnason forstjóri Samskipa hf, Jóhanna Jónsdóttir sérfræðingur (Brexit coordinator) hjá utanríkisráðuneytinu, Jón Kristinn Sverrisson lögfræðingur SFS og Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ kynntu fyrir okkur áhrif Brexit á inn- og útflutning til skamms og langtíma.
Farið var yfir lykildagsetningar en til upprifjunar þá var 29. mars 2019 upprunalegi útgöngudagur Bretlands úr ESB en útgöngu var frestað í tvígang síðast til 31. október 2019. Þann 24. júlí 2019 tók ný ríkisstjórn við undir forystu Boris Johnson, í kjölfarið af því lögðu bresk stjórnvöld fram tillögu að lausn á landamæramálinu á milli N-Írlands og Írlands. Í þessar viku gæti farið draga til tíðinda en næsta fimmtudag og föstudag þann 17. – 18. október verður leiðtogaráðsfundur ESB og laugardaginn 19. október verða bresk stjórnvöld samkvæmt lögum að sækja um frekari framlengingu á aðild Bretlands að ESB ef enginn samningur er í höfn. Breska þingið mun koma saman þann dag en það hefur ekki fundað á laugardegi síðan í stríðinu um Falklandseyjar. Þann 31. október er svo nýr útgöngudagur Bretlands úr ESB, sem gæti frestast frekar. Þann 31. desember 2020 er fyrirhuguðu aðlögunartímabili lokið en það tekur eingöngu gildi ef Bretland gengur úr ESB með samningi.
Hvað þýðir útganga með og án samnings?
Jóhanna Jónsdóttir sérfræðingur (Brexit coordinator) hjá utanríkisráðuneytinu varpaði fram nokkrum Brexit sviðsmyndum fyrir hópinn og farið var yfir þýðingu þeirra. Munurinn á því hvort útganga breskra stjórnavalda úr ESB án eða með samnings voru reifaðar. Ef gengið er út með samningi munu EES-samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB gilda áfram um Bretland til loka árs 2020, samningur EFTA ríkjanna innan EES við Bretland um útgöngumál tæki gildi og samið yrði um framtíðafyrirkomulag samskipta við Bretland. Ganga Bretar út án samnings munu EES – samningurinn og aðrir samningar Íslands við ESB hætta að gilda um Bretland við útgöngu, bráðabirgðasamningar Íslands og Bretlands tækju þá gildi, tekið yrði mið af viðeigandi aðgerðum Bretlands og ESB og samið yrði um framtíðarfyrirkomulag samskipta við Bretland.
Viðbúnaður sem verið er að vinna í vegna útgöngu án samnings eru einna helst samningar til að tryggja kjarnahagsmuni, eins og áframhaldandi réttindi borgara til búsetu, vöruviðskipti á sömu tollkjörum og flugsamgöngur. Viðbúnaðaraðgerðir ESB til að minnka tjón á innri markaðnum hafa verið teknar upp í EES-samninginn. Þá er í vinnslu að ljúka samkomulagi um bráðabirgðafyrirkomulag til að tryggja sveigjanlega fólksflutninga á milli ríkjanna.
Bretland er einn stærsti útflutningsmarkaður Íslands fyrir sjávarafurðir
Jón Kristinn Sverrisson lögfræðingur SFS fór yfir áhrif Brexit á sjávarútveginn en 15% af 240 milljarða útflutningsverðmætum íslenskra sjávarafurða árið 2018 hafi verið flutt til Bretlands. Um er að ræða okkar stærsta einstaka útflutningsmarkað. Verði hart Brexit mun taka gildi bráðabirgðasamningur sem miði að því að tryggja óbreytt tollkjör. Bretar hafa einnig gefið út almenna tollskrá til bráðabirgða sem mun gilda ef að Bretland gengur út án samnings. Í þeim tilvikum sem tollskráin veitir betri kjör en bráðabirgðasamningurinn munu þau gilda fyrir íslenska útflytjendur. Þá er ljóst að ekki verður krafist frekari heilbrigðisvottana varðandi útflutning á íslenskum sjávarafurðum en áður og mun það gilda fyrst um sinn. Óvíst er hversu lengi það ástand mun vara og mikilvægt verður að tryggja að kröfur um heilbrigðisvottorð haldist áfram óbreyttar. Rætt var um svokallaðan transit fisk, en það er fiskur sem siglt er með til Bretlands og keyrður til megilands Evrópu, m.a. á mikilvægan markað í Frakklandi. Flutningsaðilar hafa breytt og aðlagað sín leiðakerfi og við Brexit mun þessi flutningsleið beinast fyrst og fremst til til Rotterdam hvað sjóflutninga varðar en til Parísar og Amsterdam í flugfrakt. Að lokum sagði Jón Kristinn Sverrisson að samtökin hafi fylgst mjög vel með og verið í góðu sambandi við bæði stjórnvöld og sína félagsmenn og ánægjulegt að sjá hversu vel undirbúnir allir eru.
Heildsalar hafa verið að birgja sig upp af vörum frá Bretlandi
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ fór yfir það hvernig væri hægt að búa um hnútana með hagnýtum leiðum þannig að þetta myndi ganga eins vel fyrir sig og hægt væri. Hann ræddi um að stærstu heildsalar hérlendis hafa verið að birgja sig vel upp og eiga sumir hverjir nægar birgðir fram yfir áramót. Hann ræddi einnig um að birgjar í Bretlandi væru að senda þau skilaboð til sinna viðskiptavina að búa sig vel undir þessar breytingar því búast megi við að það verði algert öngþveiti efir Brexit.
Andrés kom því einnig á framfæri að stjórnvöld væru algjörlega til fyrirmyndar og benti þá sérstaklega á upplýsingasíður sem hafa verið settar upp, það má nálgast linka hér að neðan á þær síður.