Breyting á farmskráskilum í toll og komutilkynningum til viðskiptavina

Vegna breytinga á farmskrávinnslu Samskipa verða farmskrár fyrir innflutning sendar tveimur dögum eftir brottför skips frá erlendri höfn til Tollstjóra og komutilkynningar til viðskiptavina eigi síðar en þremur dögum eftir brottför.

Breyting þessi hefur í för með sér að áætlaður komudagur skips til landsins mun verða festur í tolli, strax þegar fyrsta farmskrá er send inn og ekki verður krafist breytinga eftirá, þó svo að seinkun verði á komu skips til landsins. Þá verður gengi á komutilkynningum og reikningum skráð á brottfarardegi skips frá erlendri höfn í stað þess að áður var það  þremur virkum dögum fyrir komu skips til landsins. Gengið getur því verið breytilegt í sama skipi á milli brottfararhafna.

Innflytjendur geta sent inn tollskýrslur til tolls, fyrr en venja er, en fullnaðar afgreiðsla getur þó fyrst átt sér stað við komu skips. Aðflutningsgjöld til tolls munu áfram miðast við fullnaðartollafgreiðslu sendinga.

Við hjá Samskipum teljum breytingu þessa vera stórt framfararskref í upplýsingagjöf til tolls og viðskiptavina og vonum að breytingin komi öllum til góða.