Eimskip dæmt til greiðslu hárra skaðabóta vegna samkeppnisbrota á Samskipum

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann 4. desember, dóm þess efnis að Eimskipi bæri að greiða Samskipum skaðabætur vegna máls sem Samskip höfðuðu 12. október 2011 vegna samkeppnisbrota Eimskips.

Málshöfðunin sem héraðsdómur hafði til úrlausnar er grundvölluð á ólögmætum aðgerðum sem Hf. Eimskipafélag Íslands beitti Samskip á árunum 1999-2002 og sektuðu samkeppnisyfirvöld Eimskip fyrir ólögmætar aðgerðir félagsins. Málið nú var höfðað gegn félaginu A1988 hf. en eftir efnahagshrunið leitaði Eimskip nauða­samninga og var nafni félagsins breytt í A1988 hf. á hluthafafundi félagsins þann 8. september sama ár.

Eimskip bar því við að eiga ekki aðild að málinu, en í dómnum kemur fram að nafnabreytingar Eimskips fái ekki haggað þeirri staðreynd að flutningastarfssemi félagsins á fyrri kennitölu þess hafi sannanlega flust, með öllum réttindum og skyldum, yfir til hinnar nýju kennitölu A1988 hf.

Samskip hf. höfðuðu málið til að sækja skaðabætur en upprunalega var Eimskip dæmt til stjórnvaldssektar að fjárhæð 230 milljónir króna fyrir brot gegn 11. gr samkeppnislaga. Brotin fólust í umfangsmiklum aðgerðum Eimskips þar sem félagið misnotaði markaðsráðandi stöðu sína gegn Samskipum, m.a. með því að gera viðskiptamönnum sínum bæði ólögmæt tilboð og semja við þá um ólögmæt einkakaup eða tryggðarafslætti.

Þar sem áðurnefnt brot er óumdeilanleg staðreynd taldi dómurinn ekki annað að gera en að huga að fjárhæð skaðabótakröfunnar sem dómurinn dæmdi, að frádregnum fyrndum kröfum, 162.092.110 krónur að viðbættum vöxtum frá 11. október 2007 auk dráttarvaxta frá sama degi til greiðsludags. Málskostnaður féll á A1988 hf. og var 45 milljónir króna.

  • Skoða dóminn