Engan sakaði þegar eldur kom upp í m/s Arnarfelli fyrr í kvöld
Eldur kom upp í vélarrúmi m/s Arnarfells fyrr í kvöld. Skipverjum tókst að ráða niðurlögum eldsins og siglir skipið nú fyrir eigin vélarafli til áfangastaðar síns, Immingham á Englandi.
Arnarfell var á siglingu og átti um 50 sjómílur ófarnar til Immingham þegar atvikið átti sér stað. Skipverjar brugðust rétt við samkvæmt viðbragðsáætlun Samskipa. Yfirvöld á Englandi voru upplýst um stöðu mála og fylgdust með framvindunni. Áhöfnin hafði stjórn á skipinu allan tímann og tókst að slökkva eldinn án utanaðkomandi aðstoðar. Engan úr áhöfninni sakaði við slökkvistarfið.
Tjón í vélarrúmi skipsins verður metið við komuna til Immingham í fyrramálið. Í framhaldi af því liggur fyrir hvort frekari tafir verða á áætlun skipsins.