Erfiðleikar fátíðari en áður
Rysjótt tíð hefur fylgt lægðagangi síðustu daga og vikna og í stöku tilvikum haft áhrif á akstur Samskipa með vörur vítt og breitt um landið. Áður fyrr var algengara að bílstjórar lentu í vandræðum vegna ófærðar. Úr því hefur dregið síðustu ár. Undirbúningur er betri og lokanir tíðari.
„Heilt yfir hefur þetta bara gengið vel,“ segir Jóhannes Karl Kárason, flotastjóri í akstursþjónustu heilfarma hjá Samskipum. Tvö óhöpp segir hann þó hafa orðið sem tengja megi veðri og aðstæðum síðustu daga. „Við misstum einn beislisvagn í roki undir Hafnarfjalli og svo misstum við bíl út af í roki og hálku í Húnaveri,“ segir hann, en í hvorugu tilviki hafi skemmdir verið miklar eða nokkur slys á fólki. „Sem betur fer fór allt vel.“
Áhersla lögð á upplýsingagjöf
Þrátt fyrir að veður kunni nú að hafa áhrif á áætlun vegna lokana vega í ófærð þá segir Jóhannes Karl minna um að bílstjórar séu einhvers staðar í vandræðum í erfiðum aðstæðum. Fylgt er stífum verklagsreglum til þess að forðast óþarfa áhættu á vegum úti. „Við erum orðin miklu strangari með þetta og svo er Vegagerðin líka virkari bæði hvað varðar lokanir og viðvaranir.“ Þar gæti áhrifa aukinnar umferðar, svo sem vegna ferðamanna, og því sé meira um að vegum sé lokað áður en í óefni sé komið. Þetta segir hann í raun fagnaðarefni og viðskiptavinir Samskipa sýni því líka skilning að veður geti raskað áætlunum. Fyrirtækið leggi sig líka fram um góða upplýsingagjöf og að láta strax vita með margvíslegum hætti ef út af bregður.
Bílstjórar funda vikulega
„Og svo undirbúum við líka mannskapinn vel fyrir vetrarakstur, förum yfir keðjur og búnað, hvar leita beri upplýsinga um aðstæður og að menn þurfi að ræða saman og deila upplýsingum. Á undirbúning sem þennan höfum við lagt ríkari áherslu síðustu ár og það hefur skilað sér.“ Þá eru haldnir vikulegir fundir með bílstjórum þar sem farið er yfir hluti á borð við færð og hvað sé fram undan.
„Þar koma þeir líka fram með ábendingar um aðstæður, bæði á vegum úti og á höfuðborgarsvæðinu, að þarna þurfi að moka ef það eigi að vera hægt að afhenda gám, eða að þessa brekku þurfi að salta því þar spóli bílarnir bara, og þar fram eftir götum.“
Jóhannes Karl segir vel hafa gengið að halda áætlun í ferðum þó að í verstu veðrum síðustu vikna hafi ófærð í einhverjum tilvikum haft áhrif. „Svona þegar veður var kolbilað og allt lokað.“ Loknir hafi verið mestar á Vestfjörðum. Á höfuðborgarsvæðinu séu áhrif færðarinnar helst að allt gangi hægar. „Afköstin eru náttúrlega ekki eins mikil og ef það væri ekki snjór. Svo eru fyrirtæki misdugleg að moka og salta hjá sér. Skilaboð okkar til bílstjóra eru því bara að flýta sér hægt og taka enga sénsa. Frekar að stoppa og kíkja og tryggja að allt sé í lagi.“