Fimleikasamband Íslands og Samskip undirrita samstarfssamning

Fimleikasamband Íslands og Samskip undirrituðu í dag samstarfssamning vegna Evrópumóts í hópfimleikum sem haldið verður á Íslandi í október.

Samskip eru einn af styrktaraðilum Fimleikasambandsins í þessu risavaxna verkefni og munu Samskip sjá um flutning á færanlegri stúku til landsins í tengslum við mótshaldið. Stúkan verður sett upp í Laugardalshöll og tekur rúmlega fjögur þúsund manns í sæti.

Evrópumótið í hópfimleikum fer fram á Íslandi dagana 15. - 18. október í Laugardalshöll og fer keppnin sjálf fram í frjálsíþróttahöllinni. Af því tilefni verður sett upp stúka sem rúmar 4.100 manns í sæti en aldrei áður hefur viðlíka fjölda verið gert kleift að fylgjast með innanhúss íþróttaviðburði á Íslandi. Þetta væri ekki mögulegt nema með aðkomu samstarfsaðila á borð við Samskipa. Stúkan verður flutt til landsins í 10 gámum og sett upp fyrir viðburðinn en hún er leigð hjá sömu aðilum og önnuðust allar stúkur á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Verkfræðistofan Verkís hefur unnið brunatæknilega úttekt vegna stúkunnar. Gert er ráð fyrir allt að 4000 sætum og var sérstakt rýmingarforrit notað til að herma flæði fólks úr stúkunni og þannig meta heildar rýmingartíma byggingarinnar. Jafnframt voru gerð brunalíkön til að meta hversu langan tíma rýming mætti taka.
Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa: „Þetta er áhugavert verkefni, þar sem við, með okkar lausnum, komum því í verk að Fimleikasambandið nái að koma slíkum myndarbrag á þetta stóra mót. Þetta verður skemmtilegt mót og við erum stolt af því að leggja fimleikafólkinu okkar lið.“
Undanfarin ár hafa hópfimleikar verið að ná miklum vinsældum víðsvegar um Evrópu og eru sú íþróttagrein sem stækkar hvað hraðast innan evrópska fimleikasambandsins. Íþróttin er mjög áhorfendavæn og skapast mikil stemmning á stórum mótum sem þessu, því er það einstaklega ánægjulegt að geta boðið rúmlega 4.000 manns velkomna í höllina í október þar sem Ísland á tvo titla að verja á stærsta innanhúss íþróttaviðburði í sögu Íslands

Á myndunum eru:  Þorgerður Laufey Diðriksdóttir formaður Fimleikasambands Íslands, Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa, Sólveig Jónsdóttir frá Fimleikasambandinu og  Anna Guðný Aradóttir frá Samskipum