Fjallað var um forstöðumann markaðs og samskiptadeildar okkar í síðasta tímariti Sjávarafls

Fyrir nokkrum árum sótti Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs og samskipta hjá Samskipum íþrótta- og tískusýningar í starfi sínu. Nú heimsækir hún sjávarútvegssýningar fyrir Samskip og talar af ástríðu um frystigeymslur, kolefnisspor, fljótapramma og strandflutninga. Hún er greinilega á réttri hillu.

Finnst skemmtilegast að sjá fólk blómstra

Þórunn kemur úr sportvörugeiranum, var fimm ár framkvæmdastjóri íþróttasviðs hjá Altis, sem m.a. selur Under Armour fötin og þar á undan 13 ár vörumerkjastjóri hjá Nike (Icepharma) áður en hún kom til starfa hjá Samskipum fyrir einu og hálfu ári. Hún vill þó ekki gera of mikið úr muninum á þessum störfum: ,,Á endanum erum við alltaf að eiga viðskipti við fólk,“ segir hún og bætir því við að sjávarútvegurinn sé skemmtileg grein, þar sem sé mikil framþróun og nýsköpun.

En hvernig kom það til að hún fór að vinna hjá Samskipum?

,,Ég skellti mér í MBA nám og að loknu námi fann ég mjög sterkt fyrir löngun til að róa á önnur mið. Mig langaði í eitthvað allt annað og hér er ég í dag, forstöðumaður markaðs og samskipta hjá Samskipum. ,,Þetta var algjörlega nýtt fyrir mig að koma í Samskip,“ segir hún og má segja að þar hafi hún valið að stinga sér í djúpu laugina. ,,Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að „alast“ upp á vinnumarkaði með stórum alþjóðlegum vörumerkjum sem eru leiðandi á sínu sviði. Á sama tíma er ég líka þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að læra nýja hluti, nýta reynslu mína, þekkingu og nám á nýjum vígstöðum. Það er ótrúlega mikill lærdómur sem felst í því að fara í algjörlega nýjan geira.“

Náið samstarf við sjávarútveginn

,,Undir markaðs- og samskiptasvið Samskipa falla innri og ytri samskipti og markaðsmál, þjónustuvefur félagsins, þróun á honum, ásamt vefjum félagsins bæði innri og ytri. Samfélagsleg ábyrgð og umhverfismál hafa einnig verið á mínu borði en ég hef unnið þau mál mjög náið með framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá okkur og ýmsum hópum innan félagsins. Það er gaman að vinna hjá Samskipum. Fyrir tíma Covid gerðum við eitthvað skemmtilegt saman í hverjum mánuði til að efla andann meðal starfsmanna, fjallganga, happy hour, bingó, jólapeysugleði og svo mætti lengi telja. Það sem mér finnst líka mjög skemmtileg er að við vinnum verkefni þvert á félagið. Það gefur starfsmönnum tækifæri til að taka þátt í þróunar- og umbótaverkefnum og þá kynnist fólk betur. Við höfum einnig dregið viðskiptavini að borðinu í verkefnavinnu. Það sem gefur mér mest í starfi og mér finnst skemmtilegast, er að sjá hvernig fólk þróast og blómstrar við hin ýmsu verkefni og í réttum aðstæðum.“

,,Hjá Samskipum vinnum við náið með sjávarútveginum ogbjóðum til að mynda upp á bestu þjónustuna frá ströndinni til Bretlands og meginlands Evrópu. Við leggjum mikla áherslu á umhverfisþáttinn,“ segir Þórunn. ,,Vissirðu til dæmis að það er miklu umhverfisvænna að flytja fisk í fraktflutningum en með flugi?“ bætir hún við, tekst á loft og greinilegt að umhverfismálin eiga hug hennar allan. ,,Sjóflutningar eru án vafa umhverfisvænni kostur en fraktflutningar í flugi. Þumalputtareglan er að fyrir hvert flutt tonn af farmi séu gróðurhúsaáhrif flugsins um fimmtánfalt meiri en skipsins. Visthæfni leikur stórt hlutverk hjá Samskipum og félagið er mjög framarlega í umhverfisvænum lausnum fyrir viðskiptavini sína. Við nýtum umhverfisvæna kosti eins og lestir og fljótapramma til viðbótar við vörubílaflutninga á meginlandinu, veljum umhverfisvænasta flutningsmátann í hverjum legg fyrir sig og drögum þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda.“

Samfélagsleg ábyrgð í fyrirrúmi hjá Samskipum

,,Ég er stolt af Samskipum en meðvitund um samfélagslega ábyrgð hefur alla tíð verið leiðarstef í starfsemi félagsins. Þar má nefna aðgerðir í þágu sjálfbærni, nýsköpun og mótvægisaðgerðir við skaðleg umhverfisáhrif.“ Þórunn vinnur náið með öllum sviðum fyrirtækisins og á líka í töluverðum samskiptum við viðskiptavini, einkum þá sem eru framarlega í umhverfismálum. ,,Ég hef mikinn áhuga á umhverfismálum og þau hafa verið á mínu borði hér í fyrirtækinu. Samskip er til að mynda einn af stofnaðilum Votlendissjóðsins en þar sit ég í stjórn. Eitt af okkar verkefnum er að auka vitneskju um og stuðning við endurheimt votlendis en það er ein öflugasta leiðin í baráttunni við loftslagsvána. Samstarf við Votlendissjóðinn er góð leið fyrir fyrirtæki til að kolefnisjafna rekstur sinn að hluta til eða algjörlega. Við erum öll í þessari baráttu saman og það skiptir miklu að hjálpast að. 

Ég upplifi ekki að kyn skipti máli hjá Samskipum. Jafnréttisstefna félagsins er mjög skýr og komið er jafnt fram við alla hjá Samskipum, óháð kyni eða uppruna, en vissulega mættu vera fleiri konur hjá fyrirtækinu. Ég er búin að skrá mig í Félag kvenna í sjávarútvegi og hlakka til að taka þátt í þeirra starfi ég er einnig félagi í Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA). Ég hef fylgst með því öfluga starfi sem bæði þessi félög hafa unnið undanfarin ár og þeim ofurkrafti sem félögin búa yfir. En það sem skiptir mestu máli er að við getum búið til samfélag þar sem öll kyn hafa jöfn tækifæri. Jafnrétti kynjanna er mikilvægt mannréttindamál og jafnframt forsenda friðar, framfara og þróunar. Jafnrétti skiptir okkur öll máli á einn eða annan hátt. 

Eigum flotta og sterka liðsheild                                                                                                                          

Innan fyrirtækisins er yfirgripsmikil sérfræðikunnátta sem tengist sjávarútvegi og útflutningi. ,,Við erum með mjög góða blöndu af sérmenntuðu fólki og fólki með áratuga reynslu af flutningum. Þetta er flott og þétt liðsheild en við setjum viðskiptavininn alltaf í fyrsta sæti. Við bjóðum upp á heildarþjónustu fyrir sjávarútveginn, allan hringinn. Í Ísheimum hérna úti,“ segir hún og bendir á stórt, hvítt hús við hafnarbakkann, ,,erum við með fullkomnar og tæknivæddar frystigeymslur fyrir frystar afurðir, bæði fyrir minni og stærri farma. Sérútbúin skoðunarherbergi eru til gæðaeftirlits í miðstöðinni og aðstaða fyrir ytra landamæraeftirlit með matvælum á Evrópska efnahagssvæðinu. Svo er Svala, sem eins og nafnið gefur til kynna er kæligeymsla, 900 fermetrar að stærð. Einnig býður Samskip fiskútflytjendum aðgang að tveimur stórum saltfiskgeymslum. Svala var að stórum hluta hönnuð í samvinnu við viðskiptavini Samskipa. Í henni er fullbúið skoðunarherbergi þar sem viðskiptavinir okkar geta skoðað gæði vörunnar og ástand fisksins áður en hann er fluttur úr landi. Teymið okkar í útflutningsdeildinni er með áratuga reynslu í útflutning og aðstoð við viðskiptavini. Við siglum vikulega frá Reykjavík með vöru fyrir alla landsbyggðina. Það er góð leið og möguleiki sem margir viðskiptavinir okkar nýta sér og færa þannig vöruflutningana af vegum landsins yfir í strandsiglingar.“

Samskip er með skrifstofur í 35 löndum í Evrópu, Ameríku, Asíu og Ástralíu og um 1.500 starfsmenn, en Covid-19 hefur gert það að verkum að markaðir eru erfiðir. ,,Við breyttum siglingakerfunum, sendum fólk í heimavinnu, lokuðum mötuneytinu og bjuggum til hólf sem fólk þurfti að vinna innan. Nú er fólk að koma til baka.“ Ástandið kallaði á krísustjórnun. „Fólk á skrifstofunum vann heima, það var skrítin tilfinning að mæta í næstum tómt hús.“

Þórunn segir fólk hafa verið mjög fljótt að tileinka sér nýja tækni enda margt sem mátti leysa með fjarvinnu ef viljinn var fyrir hendi. „En því er ekki að leyna að staðan er snúin og markaðir erfiðir. En þetta ástand mun ekki vara að eilífu.“

Lífið eftir vinnu

Þórunn hafði ekki mikil tengsl við sjávarútveg eða flutningsþjónustu áður en hún hóf störf hjá Samskipum. Aðspurð segist hún aldrei hafa verið í fiski en hafi hins vegar bæði veitt lax á stöng og þorsk úr Breiðafirðinum. Eignmaður hennar er líka ættaður úr Breiðafirði, þótt ekki hafi hann fengist á stöng. Þau eiga þrjú börn og eitt glænýtt barnabarn. Hún virðist full af orku enda á hún fjölmörg áhugamál flest tengjast hreyfingu og útivist. ,,Ég vinn mikið, hef aldrei verið hrædd við það, en utan vinnutíma eru það gæðastundir með fjölskyldunni sem eru númer eitt, tvö og þrjú. Við ferðumst mikið með börnin okkar bæði innanlands og utan. En uppáhaldsferðirnar eru skíðaferðir þar ná allir að vera saman og upplifa fjöllin, náttúruna og samveru með góðum vinum. Veiði, golf og hjólreiðar eru líka ofarlega á listanum yfir uppáhaldsáhugamál. Fjallgöngur eru líka skemmtilegar í góðum hóp. En það sem skiptir mestu máli að mínu mati er alltaf félagsskapurinn, áhugi minn á fólki er endalaus og ég nærist á því að gera eitthvað skemmtilegt með skemmtilegum hóp.

Þegar ég var nýbyrjuð hjá Samskipum bauðst mér að taka þátt í Cyclothoninu með liði Samskipa, að hjóla hringinn í kringum landið. Það var ótrúlega skemmtilegt ævintýri og upp úr stendur liðsheildin og félagsskapurinn. Það var algjörlega geggjað að upplifa landið sitt á þennan hátt.“ 

Nýtt ár segir Þórunn kalla á nýjar áskoranir. „Næsta verkefnið hjá mér er Landvættirnir, en við erum búnar að skrá okkur nokkrar stelpur í Landvættina fyrir 2021. Ég hlakka mikið til að klára það verkefni með þeim flotta hópi. Í því felst bæði skíðaganga, hjólreiðar, fjallahlaup og sund. Við erum byrjaðar að æfa. Félagsskapurinn er aðalatriðið, enda snýst þetta um það að hafa það skemmtilegt og eiga góðar stundir með góðum hópi, ekki að slá met. Keppnisskapið er vissulega til staðar en ég er alveg raunsæ bæði á eigin getu og þann tíma sem ég ætla að setja í þetta,“ segir Þórunn að lokum. Keppnisskapið virðist þó vera til staðar, bæði í leik og starfi, þó alltaf sé áherslan á þróun, samfélagslega ábyrgð, góð samskipti og skemmtilegan félagsskap.

Greinina má einnig skoða á vef Sjávarafls ásamt skemmtilegum greinum um konur í sjávarútvegi.