Gámaskipin umhverfisvænsti kosturinn

​Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Samskipa segir Norðurskautssiglingar ekki vera framtíðina í vöruflutningum til og frá Íslandi.

„Ferskastur verður fiskurinn alltaf í fluginu. Þú getur verið að vinna fiskinn um daginn og hann er kominn morguninn eftir á markað. Auðvitað er erfitt að keppa við það,“ segir Guðmundur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Samskips, en bendir jafnframt á að flugið sé ekki sérlega umhverfisvænt miðað við sjóflutninga og með nýrri tækni megi tryggja ferskleikann lengur en áður var í boði.

„Það er auðvitað miklu dýrara bæði peningalega og umhverfislega að flytja fiskinn í flugi, þannig að ef sjóflutningarnir geta boðið útflytjendum upp á þjónustu sem er ásættanleg þá er hún betri kostur heldur en flugið.“

Hann segir að kolefnisfótspor flutninga með flugi sé 10 til 50 sinnum meira á hverja flutningseiningu en kolefnisfótspor flutninga með skipi.

„Flutningur með gámaskipum er umhverfisvænsti kosturinn sem við höfum,“ segir hann. „Við getum ekkert búist við öðru en að neytendur muni halda áfram að þrýsta á okkur um að bæta okkur þegar kemur að umhverfinu. Sú auking sem verður í flutningi á ferskum sjávarafurðum og innflutningi á fersku mun beinast í skipin.“

Hann ræddi þessi mál á ráðstefnu um framtíð siglinga sem haldin var í Sjómannaskólanum í síðasta mánuði í tilefni sjötíu ára afmælis Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO. Siglingaráð og Samgöngustofa stóðu fyrir þeirri ráðstefnu.

Fersku flökin
Guðmundur segir greinilega þróun hafa verið í þá átt undanfarin ár að dregið hafi úr útflutningi á frystum fiski en í staðinn hafi aukist útflutningur á ferskum fiski. Aukingin í ferskum fiski sé þó bundin við fersk flök, þar sem samdráttur hefur verið á útflutningi heila fiskinum. Þessa þróun má sjá á meðfylgjandi línuriti, sem byggt er á gögnum frá Hagstofunni.

Í máli Guðmundar kom fram að útflutningur á frosnum fiski sé langstærsti hlutinn af útflutningi á sjávarafurðum og vegi uppsjávarfiskurinn þar hæst. Hins vegar sé ferski fiskurinn sá langverðmætasti og sá sem er í örustum vexti.

Allt bendi til þess að áframhaldandi vöxtur verði í útflutningi á ferskum fiski en þá muni jafnframt verða hlutfallsleg minnkum í frosnum, söltuðum eða þurrkuðum fiski.

Frystigámar á núll gráðum
„Allt fer þetta í frystigáma sem eru keyrðir á núll gráðum eða mínus einni gráðu til að halda þessu nálægt frostmarki, en ekki alveg,“ segir hann

„Síðan er mikilvægt að vera með órofna kælikeðju alla leiðina, og að stytta flutningstímann eins og kostur er. Það sem við erum að horfa á er því bæði flutningstíminn og áreiðanleikinn, þannig að vara sé alltaf komin til viðskiptavinarins á réttum tíma.“

Hann segir Samskip nú bjóða upp á tvær leiðir. Annars vegar er siglt af stað frá Reykjavík á fimmtudagskvöldi og komið til Hull í Bretlandi á sunnudegi.

„Þaðan getum við svo flutt vöruna landleiðina niður til Frakklands, og þá er hún komin á mánudagsmorgni.“

Hins vegar er siglt til Rotterdam, og er þá haldið af stað héðan á miðvikudegi en komið á áfangastað á sunnudegi.

Brugðist við kröfum
Samskip hafa þannig, rétt eins og samkeppnisfyrirtækið Eimskip, fundið fyrir og reynt að bregðast við vaxandi kröfum um að geta flutt ferska vöru á áfangastað.

„Þetta er eitthvað sem við flutningsaðilar þurfum að aðlaga okkur að. Og það sama á í raun við um innflutning, þar er líka breytt neyslumunstur. Aukin meðvitund um heilbrigði og ferskleika gerir það að verkum að innflutningur á ferskum matvælum hefur aukist og á eftir að aukast meira,“ segir Guðmundur.

„Eins er mun meira um að við fáum fyrirspurnir frá viðskiptavinum um hvert kolefnisspor okkar er og hvað við erum að gera til að bæta umhverfið.“

Norðurskautið ekki framtíðin
Guðmundur segir að jafnvel þótt siglingaleið opnist yfir Norðurskautið vegna hlýnunar þá muni það engu breyta fyrir vöruflutninga til og frá Íslandi. Megnið af þeim flutningum muni hér eftir sem hingað til verða milli Íslands og Evrópulanda.

„Það getur vel verið að á Íslandi verði sett upp umskipunarhöfn sem gæti orðið á Norðausturlandi, en það er ekki framtíðin fyrir okkur.“

Sú höfn yrði þá eingöngu fyrir risaskipin sem eru að sigla með gríðarmikið magn af vörum milli heimsálfa.

„Við gætum kannski stungið þar inn gámi og gámi, en þetta er svo stórt í sniðum að það hentar okkur ekki.

Birtist í Fiskifréttum.