Glerskipti Samskipa draga úr útblæstri
Samskip eru fyrst evrópskra fyrirtækja til að uppskera ávinning af einfaldri en varanlegri leið til orkusparnaðar í höfuðstöðvum sínum í Rotterdam í Hollandi.
Sett hefur verið upp lagskipt gler sem síar burt innrauða geisla sólar, en ekki dagsbirtu. Verkefnið er hluti af umhverfis- og sjálfbærniáætlun Samskipa og búist við að með þessu fari helmingi minni orka í kælingu byggingarinnar. Ætlaður samdráttur í kolefnisútblæstri Samskipa nemur um 45 tonnum á ári.
Ráðist var í framkvæmdina í nánu samstarfi við hollenska glervöruframleiðandann Innovative Facility Solutions (IFS) og með fjárfestingu frá hollenska eignaumsýslufélaginu Nexus Real Estate.
Glerið er sett upp í öllum aðalskrifstofum Samskipa í Rotterdam, sem telja 4.004 fermetra. Lagskipta glerið fer í um 229 gluggaramma og þekur sem svarar 548 fermetrum. Glerið er eins og þriðja lag einangrunar og heldur hita inni í byggingunni að vetri til á meðan innrauð sía glersins heldur úti hita að sumri, án þess að skerða dagsbirtu. Með þessu er áætlað að orkunotkun kælikerfis skrifstofunnar minnki um 50 prósent.
Með því að halda úti innrauðum geislum stuðlar nýja SR-IR glerið að þægilegra vinnuumhverfi þar sem haldið er kjörhita, innan 20 til 25 gráða á Celsíus.
Eftir tíu ára starf við rannsóknir og þróun á SR-IR lagskipta glerinu og ítarlegar prófanir eru Samskip fyrst fyrirtækja í Evrópu til að njóta ávinningsins af hitastýringarkerfinu.
„Markmið okkar er að starfsemin sé eins umhverfisvæn og frekast er kostur. Þetta á bæði við um flutningastarfsemina og skrifstofurnar. Samstarfið við IFS og Nexus gera okkur kleift að draga úr kolefnisútblæstri um nálægt því 45 tonn á ári. Vonandi velja fleiri fyrirtæki í flutnings- og samgöngugeira og víðar sömu leið,“ segir Eva Rademaker-de Leeuw, forstöðumaður markaðsmála og samskipta hjá Samskipum í Hollandi.
„Það gleður okkur að hafa fundið spennandi nýja lausn, í nánu samstarfi við tæknistýringarfyrirtæki okkar CBRE, sem eykur sjálfbærni fasteignar okkar. Við höfum miklar væntingar til vörunnar og búumst við, eftir að hún hefur verið sett upp í byggingu okkar í Rotterdam, að fleiri leigusalar í Hollandi fylgi fordæminu,“ segir Pieter Romme, meðeigandi hjá Nexus.
„Við erum Samskipum, Nexus og CBRE afar þakklát fyrir samstarfið. Þegar komið er fram með nýjung á markað kallar það á ákveðinn stuðning og traust frá viðskiptavinum okkar. Flest nýbreytni á þessu sviði einblínir á hvernig orka verður til, meðan oft er horft fram hjá því hvernig spara megi orku. Þessi viðhaldslitla lausn er veruleg og varanleg viðbót við „grænni“ heim,“ segir Wil van der Wal, forstjóri og stofnandi IFS.