Gullið í EcoVadis – gott starf unnið á sviði sjálfbærni

Með fjölþátta flutningskerfi (e. multimodal logistics solutions) sem styður við markmið um að lágmarka umhverfisáhrif og öðrum aðgerðum er sjálfbærni og samfélagsábyrgð innbyggð í grunnstefnu og starfsemi Samskipa. Þetta vitum við sem hjá fyrirtækinu störfum, en fögnum því þegar staðfesting á okkar góða starfi og stefnu berst utan frá, eins og með nýendurnýjaðri gullvottun EcoVadis. 

EcoVadis er viðurkenndur vottunaraðili sem framkvæmir ítarlegar úttektir á frammistöðu fyrirtækja um allan heim. Með gullvottun á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfbærni er staðfest að Samskip á Íslandi er í hópi fimm efstu prósenta fyrirtækja heims sem fyrirtækið vottar. Samskip hafa enda sjálfbærnimarkmið hvarvetna að leiðarljósi og hafa náð góðum árangri víða. Á Sjálfbærni síðu á www.samskip.is má sjá stefnu, áætlanir og árangur fyrirtækisins á sviði umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta sem og nálgast Sjálfbærniskýrslu Samskipa fyrir árið 2023. Til dæmis um árangur þá hafa Samskip á síðustu árum náð að minnka útblástur frá skipaflutningum um rúman þriðjung og fyrirtækið er í forystu á heimsvísu við innleiðingu og þróun aðgerða sem draga úr orkunotkun og minnka umhverfisfótspor starfseminnar. Viðskiptavinir fyrirtækisins hafa aðgang að kolefnisfótsporsreiknivél á vef Samskipa þar sem sjá má ávinninginn af notkun fjölþátta flutningskerfis félagsins og geta þeir einnig fengið nákvæmari útreikninga á kolefnisfótspori sinna flutninga. 


Árangur Samskipa á árinu 2023

Minnkun kolefnisfótspors Samskipa um 10,24% frá 2022

Samskip á Íslandi hlutu gullvottun EcoVadis

Sjálfbærari lausnir með áherslu á umhverfisvæna orku


Smíði tveggja vetnisskipa til sjálfbærra flutninga á styttri sjóleiðum hefur vakið mikla athygli. Skipin munu flytja vörur milli Noregs og Hollands og verða meðal fyrstu gámaflutningaskipa heims á skemmri flutningsleiðum sem ganga á grænu vetni án mengandi útblásturs. Áætlað er að með notkun vetnisins sparist hjá hvoru skipi útblástur sem nemur um 25.000 tonnum CO2.

Í Evrópu hafa Samskip einnig stigið stór skref við nýtingu sólarorku. Þá notast Samskip ávallt við nýjar vöruflutningabifreiðar sem eru ríkulega búnar tækjum og tólum sem miða að því að auka öryggi, draga úr útblæstri og tryggja eins visthæfan flutning og völ er á. Á næsta ári er líka áætlað að fá til Íslands fyrstu vöruflutningabifreiðina sem gengur fyrir vetni og Samskip hafa þegar tekið í notkun flutningabíla sem ganga 100% fyrir rafmagni. Einnig má nefna að þvottastöð Samskipa í Reykjavík fyrir stór ökutæki er eins visthæf og kostur er og notast við frárennslisvatn úr hitakerfum höfuðstöðvanna.  

Rafmagnstrukkur sem keyrir á 100% rafmagni
Þvottastöð fyrir stærri bíla

Samskip mæla orkunotkun reglulega, nýta vistvæna orkugjafa eins og kostur er og leitast við að halda mengun í lágmarki. Við val á birgjum, tækjum og öðrum aðföngum er svo leitast við að velja umhverfisvæna kosti umfram aðra. Plastmál og -flöskur hafa fyrir allnokkru verið gerðar útlægar hjá Samskipum og markvisst unnið að því að minnka pappírsnotkun. Til að draga úr sóun er mikil áhersla meðal starfsfólks að passa upp á alla matarsóun í mötuneyti Samskipa og allt sorp flokkað í sorpflokkunarstöð fyrirtækisins. Með því fást yfirgripsmiklar upplýsingar um magn og auðveldara að leita leiða til að draga úr úrgangi. 

Mannauðsmálin - fólk og félagslegir þættir

Áhersla á samfélagsábyrgð nær líka til fleiri sviða en tækniþróunar og umhverfismála. Í mannauðsmálum höfum við að leiðarljósi gildi jafnréttis og jákvæðra samskipta. Áhersla er lögð á jákvæð og uppbyggjandi samskipti og jafnræði óháð kyni, uppruna eða trúarbrögðum. Við höfum skrifað undir sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi og stefnunni markvisst fylgt eftir, svo sem með innleiðingu jafnlaunakerfis og jafnréttisstefnu. Öflugt fræðslustarf er innan fyrirtækisins og mikil áhersla er lögð á öryggismál, vinnuumhverfi og heilsu starfsfólks. 

Mikilvægt er að fagna góðum árangri. Hjá Samskipum fögnum við öll nýfenginni staðfestingu á gullvottun EcoVadis, og vitum að lykillinn að þeim árangri er staðfesta í stefnu Samskipa að vera ávallt í fararbroddi á sviði mannauðs- og umhverfismála.