Gullið jafnræði hjá Samskipum
Samskip hafa innleitt jafnlaunakerfi og jafnréttisstefnu sem nær til allra starfsmanna fyrirtækisins á Íslandi. Tilgangurinn er að tryggja jafnrétti og jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækisins og að starfsmenn hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfni sína í starfi óháð kyni.
Jafnlaunastefna er unnin í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og önnur lög sem tengjast stöðu og jöfnum rétti kynja.
Samskip leggja áherslu á jafnrétti kynjanna og að allir starfsmenn skuli eiga jafna möguleika til starfa, endurmenntunar og kjara fyrir sambærileg störf. Samskip leggja áherslu á að jafnræðis sé gætt í hvívetna.
Nýverið var PWC fengið til að gera launagreiningu hjá Samskipum og var niðurstaða þeirrar greiningar sú að konur eru með 0,8% hærri laun er karlar.
"Nánast ómögulegt er að fá 0% launamun því það eru ávallt einhver vikmörk. Æskilegast er að vera í kringum núllið +1% – 1% er frábær árangur og er það staðfesting á virkni jafnlaunakerfis okkar“ segir Bára Mjöll Ágústsdóttir, forstöðumaður mannauðsdeildar Samskipa.
Samskip fengu gullmerki PWC árið 2016 og hafa því fengið gullmerki PWC enn á ný árið 2019. Það er afar ánægjulegt að fá þessa endurteknu staðfestingu á launajafnrétti hjá Samskipum.