Helst að veðrið setji strik í reikninginn

„Jú, jú, við finnum alveg fyrir auknu álagi þegar líða fer að jólum,“ segir Stefán Þorvaldsson, bílstjóri hjá Samskipum. „Það er aðeins í meiru að snúast.“ Samskip senda jólapakka hvert á land sem er fyrir fast gjald og þá ríður á að allar áætlanir haldi, svo allar sendingar rati nú á réttan stað fyrir aðfangadagskvöld.

Stefan

Að sögn Stefáns er helst að veður geti sett strik í reikninginn og krossleggja menn því fingur í von um að það verði skaplegt í aðdraganda hátíðanna. Stórum flutningabílum getur nefnilega verið varhugavert að aka þar sem von er á miklum vindstrengjum. Á leiðinni Norður sé það helst á Holtavörðuheiði, undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi sem vegir geti lokast tímabundið vegna veðurs. „Það hafa komið nokkrir þannig dagar, eins og þetta veður sem var um daginn.“ Lykillinn að því að vel gangi sé að vera meðvitaður um aðstæður og veðurspá. „Það er ekki hægt að gera þetta öðruvísi.“

Vegina þarf að laga
Veðrinu verður ekki stýrt, en Stefán segir samt ýmislegt mega betur fara sem hægt sé að hafa stjórn á. Hann hefur nýverið ferðast dálítið bæði í Evrópulöndum og Bandaríkjunum og segir samanburð við gæði vegakerfisins ytra sýna að hér séum við áratugum á eftir. Til dæmis líði þjóðvegur eitt verulega fyrir hversu litlar framkvæmdir hafi verið ráðist í við vegbætur síðustu ár. „Yfirborð vega er víða handónýtt, hjólför og holur út um allt,“ segir Stefán. Meira þurfi til að koma en tekinn sé og lagaður spotti hér og spotti þar.

Vill tvöfalda sem víðast
Í fullkomnum heimi þar sem allar óskir vegfarenda fengjust uppfylltar segir Stefán draumastöðuna að sem flestir vegir yrðu tvöfaldaðir. Það myndi auka öryggi og liðka fyrir umferð. Þar fyrir utan mætti svo auka tillitssemi í umferðinni og meðvitund um að fulllestaðir og þungir flutningabílar eigi óhægara um vik við snöggar hraðabreytingar. „En þetta er svo sem bara eins og í lífinu sjálfu. Það virðast ansi margir troðast hver fram fyrir annan, hvort sem það er á götunum, gangstéttum eða bara úti í búð með innkaupakerruna.“