Hoffellið kemur til hafnar
Gámaskipið Samskip Hoffell kemur til hafnar í Reykjavík um kl. 17.
Varðskipið Þór mun skila Hoffellinu af sér við Engey en þar taka
dráttarbátar Faxaflóahafna við skipinu og aðstoða það síðasta spölinn að
hafnarkantinum.
Varðskipið Þór dró Hoffellið 425 sjómílna leið til Reykjavíkur eftir að það varð vélarvana um 160 sjómílum SV af Færeyjum. Þegar ljóst var að skipverjum tækist ekki að ræsa vélar skipsins að nýju síðastliðið sunnudagskvöld var ljóst að draga þyrfti það til hafnar. Eftir að hafa leitað tilboða í verkið var ákveðið að ganga til samninga við Landhelgisgæsluna sem sendi varðskipið Þór af stað.
Þór kom að Hoffellinu um hádegisbil á þriðjudaginn. Vel gekk að koma taug á milli skipanna og heimferðin gekk með ágætum. Áhöfn Hoffellsins var allan tímann um borð í skipinu í þokkalegu yfirlæti.
Við komuna til Reykjavíkur verður vel tekið á móti skipverjunum og þeim boðin öll sú aðstoð sem þeir þurfa hugsanlega á að halda.
Nú tekur við skoðun og viðgerð á vélum skipsins en ekki liggur fyrir hvaða tíma það tekur.
Samskip þakka Landhelgisgæslunni fyrir góða samvinnu og fagleg vinnubrögð.