Hressir Hollendingar í heimsókn
Um miðjan nóvember sóttu Samskip heim 23 hollenskir meistaranemar, en fyrirtækið tekur reglulega á móti gestum, jafnt í stórum hópum sem smáum. Námsferð hópsins skipulagði nemendafélag félagsvísindasviðs Vrije-háskóla í Amsterdam.
„Við byrjuðum á því að taka á móti hópnum í ráðstefnusal fyrirtækisins,“ segir Aðalheiður María Vigfúsdóttir, sérfræðingur í umbótum í rekstri hjá Samskipum. „ Þar kynntum við nemendunum stefnu Samskipa og lögðum sérstaka áherslu á að kynna hópnum þær aðferðir sem Samskip nýta sér við viðskiptaþróun og til að bæta þjónustu við viðskiptavini“
Að því búnu var hópnum boðið í rútuferð um svæði Samskipa og fengu nemendurnir meðal annars að sjá þegar skip er lestað. Þá vakti sérstaka lukku heimsókn þeirra í Ísheima en þar er alla jafna 24 stiga frost, hið minnsta.
Að lokinni stuttri kaffipásu var svo lagt verkefni fyrir nemana sem þeir unnu saman í sex manna hópum. „Það var gaman fyrir Samskip að kynnast því hvernig unga fólkið sem er á leiðinni inn á vinnumarkaðinn á næstu árum hugsar og hvernig það sér framtíðina fyrir sér. Það gladdi okkur líka að heyra hversu ánægð þau voru með ferðina,“ segir Aðalheiður María. Hópurinn tiltók sérstaklega hversu skemmtilega það hafi komið á óvart hvað Samskip var tilbúið að gefa þeim mikinn tíma. „Og ekki voru þau síður ánægð með vilja Samskipa til að fræða þau um hvernig fyrirtækið vinnur, leggja fyrir þau verkefni og gefa þeim endurgjöf á niðurstöður verkefnisins.“ Samskip þakka þessum flotta hópi kærlega fyrir komuna og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni.