Íþróttaafrek á heimsmælikvarða

Íslensku ofurhugarnir sem leggja af stað frá Kristiansand í Noregi í dag á úthafsróðrarbátnum Auði vinna íþróttaafrek á heimsmælikvarða og komast í heimsmetabók Guinness ef þeim tekst ætlunarverk sitt

Þeir munu verða fyrstir allra að róa frá Noregi til Íslands með viðkomu á Orkneyjum og Færeyjum.

„Margir kalla úthafsróður hina nýju Everestáskorun og þó svo nokkrir hafi reynt hefur engum enn tekist að róa þessa leið,“ segir Eyþór Eðvarðsson en ásamt honum taka þátt í Norður-Atlantshafsróðrinum (NAR) þeir Einar Örn Sigurdórsson, Kjartan Jakob Hauksson og Svanur Wilcox. Þeir áætla að vera 2-3 mánuði á leiðinni en undirbúningur hefur staðið á annað ár og njóta þeir fjárstuðnings fjölmargra fyrirtækja.

„Það er okkur hjá Samskipum mikið ánægjuefni að geta stutt við bakið á þessum ofurhugum. Þetta verður mikil þrekraun og við, eins og landsmenn allir, munum fylgjast spennt með gangi mála frá degi til dags hjá þeim Einari, Eyþóri, Kjartani og Svani,“ segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, helsta styrktaraðila leiðangursins.
„Stuðningur Samskipa gerir gæfumuninn og gerir okkur í raun kleift að láta þennan draum okkar rætast. Þar vegur hvað þyngst flutningur á róðrarbátnum frá Hollandi, þar sem hann var sérhannaður og smíðaður, til Íslands og síðan Noregs, þar sem hann var sjósettur í gærmorgun,“ segir Eyþór.

Allt er nú að verða klárt fyrir brottför í dag, 17. maí, á þjóðhátíðardegi Norðmanna. Allur kostur er kominn um borð, ekkert óvænt kom upp á í loka prufutúrnum í höfninni í Kristiansand. „Við erum fullir bjartsýni um að þetta takist og trúum bara á mátt okkar og megin,“ segir Eyþór.

Sérlegur verndari leiðangursins er forsetafrú Íslands og fréttir af honum munu birtast jafnóðum á Facebook, www.facebook.com/northatlanticrow, og á heimasíðunni www.northatlanticrow.com .