Konan á Sæfara

Grímseyjaferjan Sæfari sem Samskip reka, fékk heldur betur andlitslyftingu um síðustu helgi þegar götulistamaðurinn Guido van Helten málaði magnað listaverk á kinnung skipsins. Gjörningurinn var hluti af dagskrá Akureyrarvöku.

Hugmyndin að verkinu er komin frá listamanninum sjálfum sem þekktur er fyrir stórar og miklar myndskreytingar sínar á húsum og byggingum víða um heim, meðal annars á nokkrum stöðum hérlendis. Skipuleggjendur Akureyrarvöku heyrðu af áhuga Guido fyrir því að mála verk á skip og ákváðu að gera draum hans að veruleika.

 Vinnulag Guido vakti athygli gesta Akureyrarvöku, því fyrirmyndin að verkinu var lítil mynd sem hann var með í símanum sínum, eða eins og einhver sagði, „hann var með símann í annarri hendinni og spreybrúsann í hinni.“ Listamaðurinn segir að verkið sé innblásið af íslensku þjóðsögunni um konuna og selshaminn, konunni sem var um og ó, henni sem átti sjö börn á landi og sjö börn í sjó.

 Sæfari var bundinn við bryggju yfir helgina og miklu máli skipti að verkinu væri lokið tímanlega svo ferjan gæti haldið áætlun og það tókst þótt um tæknilega erfiða framkvæmd væri að ræða því töluverð hreyfing var á skipinu sem lyftist og seig eftir sjávarföllum. Listamaðurinn var þakklátur Samskipum fyrir traustið og góða samvinnu.

 Guido áætlaði að verkið tæki 40 klukkustundir og hann hélt áætlun, rétt eins og Sæfari eftir útlitsbreytinguna, hann kláraði verkið á 39 klukkustundum með dyggri aðstoð Finns Fjölnissonar málara á Akureyri og Slippfélagsins sem lagði til málninguna.

 Þrátt fyrir að bera hollenskt nafn er Guido van Helten frá Ástralíu. Hann hefur vakið athygli víða um löng fyrir verk sín og um þessar mundir er verið að vinna heimildarmynd um listamanninn þar sem vinnu hans við Sæfara eru gerð góð skil.

 Hér má sjá nokkur verk eftir Guido van Helten, þar af nokkur sem prýða íslenska húsveggi.

 

http://globalstreetart.com/guido-van-helten