Lífið á gámavellinum

Það er ekki annað hægt en að segja að Ólafur A. Ólafsson,
rekstrarstjóri á gámavellinum hafi yfirsýn yfir völlinn og það sem þar fer
fram.

Úr turninum sínum hefur hann gott útsýni og það sem vökul augu hans sjá ekki nema augu myndavélanna sem stöðugt fylgjast með svæðinu og öllu sem þar fer fram. Myndavélunum er fyrst og fremst ætlað að tryggja öryggi starfsmanna og flæði gáma og vinnuvéla um svæðið. „Öryggið skiptir öllu máli,“ segir Ólafur og bætir við að starfsfólk gámavallarins sé mjög meðvitað um öryggismál „og það sé ekki síst starfsfólkinu að þakka hversu lítið hefur verið um slys og óhöpp hjá okkur“.

Stjórnstöðin hans Ólafs er ekki frábrugðinn flugturni. En í stað flugumferðar er þar fylgst með gámaumferðinni og hún er töluverð. Alls fara tugir þúsunda gáma um völlinn á ári. Hverju sinni eru nokkur þúsund gámar á svæðinu sem ýmist bíða eftir því að vera skipað um borð, tæmdir í vöruhús Samskipa eða ekið til viðskiptavina félagsins.

Daginn sem við heimsóttum gámavöllinn var verið að ferma eitt af skipum félagsins þar sem allt gekk skipulega fyrir sig. Starfsfólkið vissi hvað það var að gera og engu líkara var en að gámarnir væru fluttir eftir ósýnilegu leiðakerfi um gámavöllinn, ýmist að skipshlið eða út af svæðinu.


Tíminn er peningar

Sveinn Sæmundsson er í turninum með Ólafi og hans hlutverk er að stjórna því hvar í skipinu hver gámur á að vera og það er ekkert smámál.

„Tvennt er nauðsynlegt að hafa í huga þegar gámunum er raðað í skipið. Að sjá til þess að stöðugleikinn sé ávallt sem mestur og að gámarnir séu aðgengilegir þegar í höfn er komið. Tíminn er peningar og í höfnum erlendis er óþarfi að eyða dýrmætum tíma í að forfæra gáma svo unnt sé að ná í þá sem þar eiga að fara í land á hverjum stað,“ segir Sveinn.

Á meðan Sveinn situr við tölvurnar og fylgist með lestun og stöðugleika skipsins er nóg að gera á vellinum. Lyftarar og mafíur liðast um völlinn, frystigámar eru þvegnir, fluttir á sinn stað og stungið í samband svo þeir séu klárir þegar á þarf að halda. Gámar sem þurfa viðhald fara í viðgerð og vörur eru afgreiddar.


Tugir gáma á klukkustund

Stjórnendur gámavallarins vita nákvæmlega hversu þungur hver gámur er og hvar á svæðinu hann er. Með hjálp lyftara sjá mafíurnar um að koma gámunum í réttri röð að krananum þar sem Þorsteinn Gunnarsson tekur við því erfiða verki að hífa þá um borð og það er sannkallað nákvæmnisverk. Hann kemur gámunum, sem oft eru tugir tonna að þyngd, á sinn stað, þannig að varla skeikar millimetra.

Þorsteinn lyftir tugum gáma um borð á klukkustund og gámarnir geta verið erfiðir viðfangs. Þyngdardreifing gámsins getur verið misjöfn og þá þarf að bregðast við því og vindurinn getur sannarlega tekið í gámana. „Við hífum gáma þangað til við sjáum ljósið úr friðarsúlunni svigna undan vindinum,” segir Þorsteinn með bros á vör en bætir við að „þegar friðarsúlunnar njóti ekki við sé hætt að hífa þegar vindurinn nái 20 metra hraða á sekúndu. Það er ekki verandi við þetta í meiri vindi er svo,” segir hann.

 

Skemmtilegt og krefjandi

Sólveig Sigurðardóttir er jafnvíg á lyftara og Mafíu en það eru sérstakir bílar sem flytja gáma milli svæða á gámavellinum. Þegar við heimsóttum völlinn sat hún undir stýri á einni Mafíunni og þvertók fyrir að um einhæft starf væri að ræða. „Þetta er bæði krefjandi og skemmtilegt. Ég tala nú ekki um þegar verið er að lesta skipin. Þá erum við hluti af keðju sem helst þarf að ganga á jöfnum og góðum hraða. Það er töluverð pressa á manni, ég neita því ekki að stundum vildi ég að Mafían kæmist hraðar en 30 km á klukkustund. En um það fæ ég engu ráðið,“ segir Sólveig og kvaddi, enda má ekki láta kranann bíða.

 

Þetta lærist

Gámalyftarinn var eins eins og lipur fólksbíll í höndunum á Stefáni Karlssyni, svo auðveldlega smaug hann á milli gámastæðanna og ávallt tókst honum í fyrstu tilraun það sem flestum þætti nánast ómögulegt, að koma gámaspreddanum í réttan gám, oft langt yfir höfði sér. „Þetta lærist,“ sagði hann fullur hógværðar en bætti við að þetta hefði ekki verið auðvelt til að byrja með, „hreint ekki en lærðist furðu fljótt, sem betur fer“.

Stefán segist vera ánægður á gámavellinum. „Starfið er fjölbreytt og krefjandi, vinnuandinn góður og hér erum við hluti af heild sem vinnur saman og leysir verkefnin, jafnvel þótt það geti teygst á vinnudeginum. Það skiptir öllu máli að skipin haldi áætlun sinni og við erum hér til þess að það takist,“ segir Stefán lyftaramaður.