Líflegir dugnaðarforkar
Senn fjölgar starfsfólki Samskipa um 70 – 80 manns þegar líflegur og lífsglaður hópur sumarstarfsmanna mætir til starfa.
Rétt um helmingur hópsins er að stíga sín fyrstu spor innan fyrirtækisins en aðrir búa yfir reynslu af sumarvinnu síðustu ára og einhverjir þeirra hafa jafnvel unnið með skólanum í hlutastarfi hjá Samskipum yfir veturinn.
Flestir sumarstarfsmennirnir eru námsmenn „og vinnan því töluverð búbót,“ segir Bára Mjöll Ágústsdóttir, forstöðumaður mannauðsdeildar Samskipa. „Sumarfólkið okkar eru miklir dugnaðarforkar og starfa aðallega í vöruhúsinu eða á gámavellinum. Þetta líflega starfsfólk kemur með sumarið með sér þegar það kemur til starfa, yfirleitt um miðjan maí og er hjá okkur fram í miðjan ágúst.“
Sá elsti er 72 ára
Flestir sumarstarfsmennirnir eru á aldrinum 18 til 25 ára en sá elsti er töluvert eldri, eða 72 ára gamall. Bára Mjöll segir að það sé dyggur starfsmaður Samskipa sem hafi unnið hjá fyrirtækinu nánast alla sína starfsævi. „Hann hóf störf árið 1961 og vann hjá fyrirtækinu í 50 ár. Síðustu ár hefur hann lagt okkur lið yfir sumarið með sérþekkingu sinni.
Við ráðum ekki sumarfólk í sérhæfð störf nema í undantekningartilvikum og þá helst bílstjóra með meirapróf, enda er sumarið háannatími í landflutningum hjá okkur. Bílstjórar eru reyndar mjög eftirsóttir á sumrin þegar ferðaþjónustan er í hámarki en okkur hefur tekist að manna þær stöður því fólki finnst yfirleitt gott að vinna hjá Samskipum.“
Starfsfólk frá 18 löndum
Alls starfa um 500 manns hjá Samskipum á Íslandi. Auk Íslendinga sem þar eru í miklum meirihluta starfar hjá fyrirtækinu fólk frá 17 öðrum þjóðlöndum. Bára segir að hluti sumarstarfsfólksins sé af erlendum uppruna, „gjarnan börn starfsmanna sem hafa starfað hjá okkur árum saman.“
Það gefur augaleið að mannlífið er fjölbreytt þar sem saman starfar fólk frá 18 löndum. Bára tekur undir það og segir oft skemmtilegt að ganga um matsal fyrirtækisins og heyra þar fólk tala saman á fjölda tungumála. „En það eru ekki bara tungumálin sem eru ólík. Munurinn felst í fleiru.
Hjá okkur vinna saman einstaklingar með ólíkar trúarskoðanir og það getur líka verið heilmikill menningarmunur milli starfsmanna vegna uppruna þeirra. Með því að taka tillit til þessara þátta hefur okkur tekist að skapa gott starfsumhverfi þar sem fólki líður vel á fordómalausum vinnustað,“ segir Bára Mjöll Ágústsdóttir, forstöðumaður mannauðsdeildar Samskipa.