LNG skipin til Rotterdam

Flutningaskipið Mv Kvitnos fór sína fyrstu ferð með vörur á milli Rotterdam í Hollandi og hafna í Noregi í byrjun mánaðarins. Um er að ræða nokkur tímamót því þetta er í fyrsta sinn sem skip í flota Samskipa sem gengur fyrir fljótandi jarðgasi (LNG) flytur vörur frá Rotterdam.

Samskip tóku við rekstri flutningaskipanna Kvitnos og Kvitbjørn, sem bæði ganga fyrir LNG, þegar Nor Lines flutningafyrirtækið var keypt. Skipin falla að sjálfbærri stefnu Samskipa. Til dæmis losa þau ekkert köfnunarefnisoxíð (NOx) út í andrúmsloftið, lágmarka losun á brennisteinsdíoxíði (SOx) og losa 70 prósent minna af koltvísýringi á hvert flutt tonn á kílómetra heldur en vöruflutningabifreiðar. Þá eru þau umtalsvert hagkvæmari þegar kemur að orkunýtingu í samanburði við skip sem brenna hefðbundinni skipaolíu.

Fyrstu vöruflutningarnir frá Rotterdam gengu vel, en í fyrsta viðkoma Kvitnos í Rotterdam var tækifærið notað til þess að kynna hafnarverkamönnum umgengni við nýja skipið, hvernig best er að nota krana og keyra bíla og vagna um borð. Kvitnos er svokallað RoRo-skip en þau flytja bíla og vagna sem hægt er að aka um borð og frá borði.

Skipið hélt til Stafangurs í Noregi nærri fulllestað, meðal annars með flutningabíla með vörur fyrir olíuiðnað, tengivagna með rör, húsbíla og húsvagna, vélabúnað, rúllur með stálþynnum, og vörubretti með lausavöru.

Kvitbjørn er svo væntanlegur til Rotterdam næstkomandi föstudag, en þá verður gerð tilraun til áfyllingar fljótandi jarðgass á tanka skipsins í Rotterdamhöfn.