Markverður árangur í öryggisátaki Samskipa

Í sérstöku vinnuverndarátaki hefur Samskipum tekist að draga úr tjóni á ökutækjum um 77 prósent miðað við stöðuna árið 2017. Farið var af stað með verkefnið á síðasta ári og markið sett á 50 prósenta fækkun og árangurinn því fram úr vonum.

Árangur fram úr vonum

Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla um upplýsingar frá tryggingafélögum hefur ökutækjatjón aukist hér á landi undanfarin misseri. Aukningin er annars vegar rakin til aukinnar umferðar og álags á vegakerfi landsins og hins vegar er nýrri og fullkomnari ökutækjum sagður fylgja aukinn tjónakostnaður því þau séu dýrari í viðgerð.

Við þessar aðstæður freistaði starfsfólk bílarekstrardeildar Samskipa þess fækka tjónum svo um munaði. Sérstakt teymi var stofnað um verkefnið og þá hafa verið haldnir mánaðarlegir fundir með bílstjórum um stöðu mála.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og vakti meðal annars athygli Sjóvár, tryggingafélags Samskipa, sem sendiKarlottu Halldórsdóttur, verkefnastjóra forvarna, á staðin til að sjá hvað verið væri verið að gera rétt. Ávinningur Samskipa birtist því ekki eingöngu í fækkun slysa heldur einnig í lægri iðgjöldum.

Vinnustaðurinn öruggari

„Upplifun bílstjóra er mjög góð því vinnuumhverfi bílstjóra hefur batnað og það mælist vel fyrir að hafa vettvang þar sem hist er einu sinni í mánuði til að ræða vinnuumhverfið og skipuleggja fyrirbyggjandi aðgerðir sem gagnast þeim í starfi,“​ segir Ingi S. Ólafsson rekstrarstjóri í bílarekstrardeild. Hann  segir alla hafa lagst á eitt um að ná góðum árangri og ánægjulegt að hann hafi verið slíkur að fulltrúi tryggingafélags Samskipa hafi mætt til að kynna sér málin. „Það er náttúrulega frábært og við erum með öruggari vinnustað fyrir vikið.“