Mörg handtök á bak við þátttöku í Brussel

Sjávarútvegssýningin í Brussel sem fram fer ár hvert er ein af stærstu sýningum sinnar tegundar. Samskip taka enn á ný þátt í sýningunni á þessu ári, en hún fer fram 24. til 26. apríl næstkomandi.

Það er hins vegar meira en að segja það að taka þátt í sýningu af þessari stærðargráðu og að mörgu að hyggja í undirbúningi. Bóka þarf pláss á sýningarsvæðinu, en í þeim efnum eru Samskip í samstarfi við Íslandsstofu og sýna undir hatti Íslands. Ákveða þarf skipulag á básnum, láta teikna upp og samþykkja, en að þessu sinni sér þýskur aðili um sýningarkerfið. Að því búnu þarf að ákveða merkingar og skraut og þá fá Samskip auglýsingastofuna í lið með sér.

„Þegar allir eru sáttir fer allt í prentun en sýningaraðilinn sér um koma öllu fyrir þannig að þegar umsjónaraðilar mæta á svæðið er básinn okkar tilbúinn að mestu,“ segir Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, en hún skipuleggur þátttöku fyrirtækisins að þessu sinni.

„Svo er líka eitt og annað sem við tökum með okkur frá Íslandi sem þarf að pakka og koma í skip þannig að nái sýningunni í tæka tíð. Þetta eru til dæmis gjafavörur ýmiskonar, íslenskur bjór, brennivín sem mörgum finnst gaman að smakka, harðfiskur sem er afar vinsæll og svo kynningarefni.“

Anna Guðný segir nokkra breytingu hafa orðið síðustu ár á því sem tekið sé með út á sýninguna. „Nú er ekki lengur vatn í plastflöskum, heldur vatnsvélar og endurvinnanleg gjös eða margnota flöskur í boði. Sama má segja um bæklinga ýmiskonar sem eru að hverfa. Þetta er í takt við umhverfisstefnu okkar.“

Sýninguna sækja yfir 30 þátttakendur frá Samskipum víðsvegar um heiminn og það þarf að bóka aðgangspassa fyrir alla, hótel meðan á sýningunni stendur, flug fyrir þá sem þurfa og ýmislegt fleira. Allir fá sent bréf með leiðbeiningum, svo sem um lestarkerfið í Brussel og hvernig er best að komast á milli staða. Svo er sett upp „vaktaplan“ fyrir sýninguna þannig að bás Samskipa sé alltaf mannaður til að þjóna þeim sem til fyrirtækisins leita.

„Það er alltaf mikið að gera í bás Samskipa á Sjávarútvegssýningunni í Brussel,“ segir Anna Guðný, sem þekkir sýninguna út og inn enda langt frá því að hún nýgræðingur í skipulagningu hennar. „Ég held að þetta sé nítjánda skiptið sem ég sé um sýninguna í samstarfi við aðra og það er alltaf jafn gaman.“

Mynd1

Mynd 1: Það er alltaf gestkvæmt og líf og fjör á svæði Samskipa á Sjávarútvegssýningunni í Brussel.

Mynd2

Mynd 2: Í mörg horn er að líta við skipulagningu fyrir Sjávarútvegssýninguna, fluttar eru út gjafavörur og veitingar, íslenskur matur og drykkur, auk kynningarefnis og svo allt fólkið.

Mynd3

Mynd 3: Sjávarútvegssýningin í Brussel er ein sú viðamesta í heimi á sínu sviði og einhverjum gæti komið á óvart hvað sýningarsvæðið er mikið flæmi.

Mynd4

Mynd 4: Dagur að kveldi kominn á Sjávarútvegssýningunni í Brussel í fyrra, en enn setið að spjalli og undirbúningi næsta dags á svæði Samskipa.