Nítjándi Fiskidagurinn á næsta leiti
Samskip hafa frá upphafi stutt á margvíslegan máta við fjölskylduhátíðina Fiskidaginn mikla á Dalvík. Í ár fer hátíðin fram 8. til 11. ágúst. Líkt og undanfarin ár er búist við fjölda gesta, enda Fiskidagurinn mikli með mest sóttu fjöldahátíðum landsins.
Fiskidagurinn mikli fer ávallt fram á Dalvík helgina eftir verslunarmannahelgi ár hvert og koma þá til bæjarins gestir hvaðanæva að til að samgleðjast heimafólki. Í stórum dráttum er dagskráin með hefðbundnu sniði, fiskisúpukvöld á föstudeginum og á laugardegi fer fram skemmtidagskrá sem endar með stórtónleikum og flugeldasýningu um kvöldið.
Grunnhugmyndin að Fiskideginum mikla snýst um að Dalvíkingar bjóða öðrum landsmönnum í mat með þannig fyrirkomulagi að enginn þurfi að taka upp veskið, en aldrei hefur verið rukkað fyrir aðgang að hátíðinni, hvorki mat né skemmtiatriðum.
Aðkoma Samskipa að hátíðinni hefur verið allnokkur frá upphafi, en félagið flytur og hýsir obbann af matvælum og frystivöru fyrir hátíðina, auk sviðsbúnaðar og tækja sem notuð eru á svæðinu. Eins leggur fyrirtækið lið við undirbúning á hátíðarsvæðinu og á meðan á hátíðinni stendur, svo sem við uppsetningu á skjólvegg úr gámum við Hafnarvogina þar sem stóra útigrillið er og með því að geyma við fiskasýninguna, sem þarf að vera frosin fram að sýningu. Eins hafa Samskip aðstoðað við að afmarka götur og hátíðarsvæði með tækjum, bílum og flutningavögnum, auk þess að aðstoða við uppsetningu á smærra sviðnu sem notað er á sjálfan hátíðardaginn.