Notkunin í ár 1% af því sem áður var

Merkjanleg áhrif eru af átaki til að draga úr plastnotkun sem ráðist var í hjá Samskipum í byrjun árs. Það sem af er ári nema innkaup fyrirtækisins á plastmálum innan við 1% af meðalinnkaupum síðustu tveggja ára.

Árið 2015 voru keypt inn 95.400 plastmál hjá Samskipum og á síðasta ári voru þau 107.600 talsins. Það sem af er þessu ári hafa hins vegar einungis verið keypt 1.000 plastmál hjá Samskipum.

Í febrúar á þessu ári var hafið stórátak hjá fyrirtækinu með það að markmiði að draga úr plastnotkun vegna drykkjarfanga. Plastmál sem áður voru notuð undir kaffi og vatn voru gerð útlæg og í staðinn notast við glös og bolla úr gleri. Þá hefur innkaupum á vatni, kolsýrðu eða hreinu, í flöskum líka verið hætt og fólk hvatt til þess að drekka frekar kranavatn.

„Áður en við réðumst í þetta töldum við að þetta gæti orðið erfitt, en svo reyndist þetta bara ekkert mál og gekk ótrúlega vel,“ segir Bára Mjöll Ágústsdóttir, forstöðumaður mannauðsdeildar Samskipa.
„Fólk fagnaði þessari breytingu og fannst hún vera sjálfsögð. Það hefur verið heilmikil vakning í þjóðfélaginu varðandi plastnotkun, þannig að þegar upp var staðið þá fannst starfsfólki þetta vera afar eðlileg og tímabær ákvörðun.“

Bára Mjöll segir hafa komið á óvart þegar talningin var gerð hversu mikið magn plastmála, í einingum talið, Samskip höfðu verið að nota. „Við erum mjög stolt af þessu og munum aldrei snúa til baka, það er alveg á hreinu.“

Aðgerðin er hluti af stefnu Samskipa í átt til aukinnar samfélagsábyrgðar; með minni úrgangi, aukinni endurvinnslu og minna kolefnisspori. Félagið hefur sett sér markmið í þessum efnum og er eitt þeirra íslensku fyrirtækja sem á sínum tíma skrifaði undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum.