Ný og endurbætt landamæraeftirlitsstöð Samskipa

Ný og endurbætt landamæraeftirlitsstöð á athafnasvæði Samskipa við Kjalarvog í Reykjavík er til reiðu og með öll tilskilin leyfi. Fyrr á þessu ári tilkynnti MAST að umsókn Samskipa um uppfærslu á leyfi til rekstur landamæraeftirlitsstöðvar hefði verið samþykkt af hálfu ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópusambandsins.

Landamæraeftirlitsstöðin ber kennimerkið IS REY 1b og er skráð sem slík bæði hjá MAST og Evrópusambandinu. Á landamæraeftirlitsstöð Samskipa má afgreiða allar pakkaðar vörur úr dýraríkinu, hvort sem er til manneldis eða ekki ásamt pökkuðum vörum til manneldis sem ekki eru úr dýraríkinu. Fyrra leyfi samskipa náði til færri vara og styður breytingin því við aukna og bætta þjónustu Samskipa við viðskiptavini.

„Þessi breyting á sér nokkurn aðdraganda og mikil vinna sem lögð hefur verið í þessa umsókn, en afgreiðsla hennar hefur tekið nærri tíu ár. Með nýrri landamærastöð er kominn skýr rammi um allan innflutning sem kallar á aðkomu MAST og þjónusta Samskipa við viðskiptavini eykst,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Frekari skýringar vöruflokkum sem heimilir eru á landamæraeftirlitsstöð Samskipa er að finna í reglugerð 375 frá 2020, þar sem innleidd er framkvæmdarreglugerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins númer 2019/1014. Í henni er að finna ítarlegar reglur um lágmarkskröfur fyrir landamæraeftirlitsstöðvar (varðandi matvæli, fóður o.fl.).