Okkar maður á Ísafirði – Einar Pétursson

Héraðsfréttablaðið Bæjarins Besta sem er gefið er út á Ísafirði birti á dögunum  skemmtilegt viðtal við Einar Pétursson, stöðvarstjóra okkar á Ísafirði  sem Thelma Hjaltadóttir tók

Við þökkum blaðinu fyrir að leyfa okkur að birta viðtalið hér ásamt myndum sem blaðið tók.

 Með flutninga í genunum

 Bolvíkingurinn Einar Pétursson hefur komið víða við á sínum starfsferli, allt frá því að stýra bæjarfélagi í að vinna við fiskflutninga og margt þar á milli. Nýlega tók hann til starfa sem stöðvarstjóri hjá Samskipum á Ísafirði. Þar mun hann m.a. sjá um flutningaþjónustu fyrirtækisins á Vestfjörðum. Óhætt er að segja að Einar hafi víðtæka reynslu af flutningaþjónustu en hann segist sjálfur vera með hana í blóðinu enda ólst hann upp við spennandi bernskuheim, að eigin sögn, í tengslum við flutningafyrirtæki föður síns í Bolungarvík.

Blaðamaður Bæjarins besta kíkti á Einar á nýja vinnustaðnum og spjallaði aðeins við hann um starfsferilinn, nýja starfið og flutningaáhugann sem hann virðist bera í genunum.

 Vantaði hafið og fjöllin

 

            Einar sleit barnsskónum í Bolungarvík en býr nú á Ísafirði. Foreldrar hans eru Helga Aspelund og Pétur Guðni Einarsson sem lést árið 2000.

            „Mamma er Ísfirðingur í húð og hár og pabbi Bolvíkingur. Þess vegna er nú ég að prófa að búa á báðum stöðum,“ segir Einar hlæjandi. „En ég sjálfur kalla mig nú alltaf Víkara með stórum staf, enda getur maður ekki verið annað en stoltur af upprunanum þó svo að ég sé auðvitað hálfur Ísfirðingur og einnig stoltur af því.

            Ég gekk alla mína grunnskólagöngu í Grunnskólanum í Bolungarvík og fór að henni lokinni tvö ár í Menntaskólann á Ísafirði en kláraði stúdentinn á Akureyri. Eftir það flutti ég til Reykjavíkur og bjó þar í áratug fyrir utan þann tíma sem tók að klára rekstrarhagfræði í Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Ég fann samt aldrei fjölina mína á suðvesturhorninu og flutti aftur vestur 2003. Ætli mig hafi ekki vantað að hafa haf og fjöll í kringum mig, sjá eitthvað meira en bara næsta hús.“

            Einar tók þá við bæjarstjórastólnum í Bolungarvík og tók þar við af Ólafi Kristjánssyni, sem verið hafði þá verið  bæjarstjóri í Bolungarvík síðan árið 1986 eða rúm fjögur kjörtímabil. Einar sat eitt kjörtímabil sem bæjarstjóri og ákvað að gefa þá ekki kost á sér þar sem hann vildi leita á önnur mið. Hann segir þetta tímabil þó hafa verið afar gott og skemmtilegt.

            „Það var auðvitað mjög gaman að koma heim. Starfið var bæði krefjandi og skemmtilegt og margt sem maður tók sér fyrir hendur. Maður vann með góðu fólki og lærði heilmargt á stuttum tíma. En oft á tíðum var þetta barningur frá degi til dags.“

 Bylting í samskiptum sveitarfélaganna

 Stærsta verkefnið á kjörtímabili Einars var án efa ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera jarðgöng til Bolungarvíkur, sem í dag ganga undir nafninu Bolungarvíkurgöng og eru í mikilli notkun.

            „Ég man ennþá hvar ég var þegar ég fékk símtalið frá Sturlu Böðvarssyni, þáverandi samgönguráðherra, þar sem hann tilkynnti mér að ákvörðunin hefði verið tekin. Þá var ég á hafnarsambandsráðstefnu í Hafnarfirði. Ég var auðvitað mjög ánægður að heyra þær fréttir. Þær gerast nú varla stærri fréttirnar sem maður getur fengið sem bæjarstjóri.“

            Framkvæmdir við göngin hófust þó ekki fyrr en Einar hafði látið af störfum sem bæjarstjóri.

            „Þetta tók allt sinn tíma og það var nokkur barningur við að hrinda verkefninu í framkvæmd. Það tók langan tíma að ákveða hvar göngin ættu að liggja. Upphaflega hugmyndin var að gera tvenn lítil göng en við Bolvíkingar settum okkur strax upp á móti því. Það hefði bara verið svokölluð plástraleið og því ekki í boði af okkar hálfu. Við vorum gallhörð á því að vilja ein göng. Þar af leiðandi tók þetta allt tíma að fara í gegn. Það fékkst þó að lokum samþykki fyrir því og göngin eru óneitanlega bylting í samskiptum sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum. Bæði hvað varðar atvinnulífið, skólagöngu og íþróttalíf og margt fleira. Þetta er allt farið að ganga betur saman með tilkomu gangnanna.“

 Kunna vel við sig á Ísafirði

 Árið 2006 keyptu Einar og fjölskylda hans hús á Ísafirði og fluttust frá Bolungarvík.

            „Ég tók þá til starfa sem fjármála- og gæðastjóri hjá verktakafyrirtækinu KNH og síðar starfaði ég hjá Kubbi ehf. Við erum búin að vera á Ísafirði í tíu ár núna og líkar bara vel. Mamma fluttist sama ár frá Bolungarvík til Ísafjarðar og systur mínar bjuggu þar fyrir svo það er bara meðlimir úr stórfjölskyldunni sem eru eftir í Bolungarvík. Ég á fjögur systkini. Tvo bræður þá Hannes sem býr á Akureyri og Harald í Reykjavík. Systur mínar tvær, þær Arna og Hildur Elísabet, búa hins vegar hér á Ísafirði.

            Einar og eiginkona hans Aníta Ólafsdóttir frá Hnífsdal eiga saman þrjá syni, þá Ólaf Atla, Pétur Guðna og Einar Orra.

            „Sá elsti er 22 ára og býr út í Bandaríkjunum þar sem hann gengur í skóla í North Carolina. Hann leggur þar stund á upplýsingatækni. Þeir yngri eru tíu og sex ára. Þó svo að miðstrákurinn hafi fæðst meðan við bjuggum í Bolungarvík þekkja þeir tveir yngri ekki annað en að búa á Ísafirði þó vitaskuld séum við alltaf með sterk tengsl við heimabæinn minn. Við fjölskyldan erum afar ánægð með að hafa flutt aftur vestur á sínum tíma. Það eru búsetuskilyrðin hér vestra sem heilla mig. Svona á efri árum finnur maður fyrir aukinni löngun til þess að hreyfa sig og vera úti í náttúrunni. Ef mann langar til að stunda útivist hér vestra er nóg að ganga nokkur skref frá heimilinu til að sækja hana, hvort sem það er bara göngutúr í náttúrunni, skíði eða hvað annað. Þetta er ekki sjálfgefið og í raun alger forréttindi að búa við.“

            Aðspurður um helstu áhugamálin segir Einar þær vera íþróttir og líkamsrækt í fjölbreyttu formi. Það er því ekki úr vegi að spyrja hvort hann stundi einhverjar íþróttir sjálfur.

            „Ég stundaði mjög mikið íþróttir á yngri árum. Æfði sund, skíði og fótbolta fram eftir unglingsárum og fylgist vel með ennþá.

 Seinni árin hef ég haft mikinn áhuga á almennri líkamsrækt og hef haldið mér við með hlaupum og skíðum. Ég hef núna tekið stefnuna á að verða landvættur sem felst í því að klára eina þraut í hverjum landsfjórðungi á innan við einu ári.

Í Vesturhlutanum eru það 50 km í Fossavatnagöngunni sem er nú bara eftir rúma viku. Í suðurhluta landsins ætla ég að takast á við Bláalónsþrautina í júní sem felst í 60 kílómetra hjólreiðum frá Hafnarfirði í Bláa Lónið, eins og nafnið gefur til kynna. Í júlí verður svo austurhlutinn tekinn fyrir með 2,5 kílómetra sundi í Urriðavatni. Ég kláraði svo norðurhluta landsins í fyrra með jökulsárhlaupi en um var að ræða 32,7 km hlaup frá Dettifossi í Ásbyrgi.“

 Áhuginn fyrir flutningum kviknaði í bernsku

 Einar er nú snúinn aftur til Samskipa en hann hóf upphaflega störf hjá fyrirtækinu árið 1998 þar sem hann sinnti lestunarstjórn og stýringu gámaflutninga. Hann vann hjá Samskipum til ársloka 2002 jafnhliða því að stunda nám í rekstrarfræði.

            „Ég vann í fjögur ár hjá Samskipum, bæði í fullu starfi og í hlutastarfi með fram skólanum á Bifröst. Ég var bæði í land- og sjóflutningum ásamt gáma- og akstursstýringu. Ég þekkti því vel fyrirtækið þegar ég tók við stöðu stöðvarstjóra á Ísafirði. Reyndar er það þannig með Samskip að algengt er að starfsmenn séu með langan starfsaldur. Ég þekki því enn mörg andlit í fyrirtækinu frá því ég var að vinna hjá þeim í kringum um síðustu aldamót.“

            –Hvernig leggst í þig að vera byrjaður að starfa hjá Samskipum á Ísafirði.

            „Mjög vel. Starfið stóð frekar snöggt til boða. Frá því að ég fékk símtal og var boðið að koma í atvinnuviðtal og þar til að ég ákvað að slá til. Ég tók síðan til starfa 1. mars. Ég kann afar vel við mig í þessu umhverfi enda ná rætur mínar í flutningum langt aftur til bernsku minnar. Pabbi rak flutningafyrirtæki í Bolungarvík og keyrði á milli til Reykjavíkur.

               Það má því segja að þetta sé í genunum hjá manni. Ég var rétt um sjö eða átta þegar ég byrjaði að sniglast í kringum flutninga og ég man hve spennandi mér fannst vörubílarnir og allt í kringum þetta. Yngri bróðir minn hefur hins vegar ekki haft neinn áhuga á flutningastarfi svo þessi áhugi snýst ekki bara um að hafa umgengist þetta sem krakki heldur er þetta einhvern veginn í blóðinu.“

 Strandflutningar eru bylting í flutningsmálum

 Einar segir spennandi tíma vera í flutningaþjónustunni, sér í lagi á Vestfjörðum.

            „Skipaflutningarnir hafa valdið algjörri byltingu í flutningsmálum. Nú er í boði að flytja þunga farma með skipum sem annars hefði þurft að flytja eftir vegunum. Þetta skiptir gríðarlegu máli í kostnaði fyrir fyrirtækin auk þess sem það minnkar álagið á vegum. Ef við tökum sem dæmi þá voru í einni ferð nú um daginn fluttir 24 gámar með skipi beint frá Ísafirði til Rotterdam.. Ef við hefðum þurft að flytja þá landleiðina suður hefði það þess í stað valdið talsverðu sliti á vegunum í þeim 24 ferðum sem hefði þurft til á 50 tonna bílum. Ef litið er á þetta út frá mengun þá eru kostirnir ótvíræðir. Með þessu er verið að minnka losun á koltvísýringi töluvert.

            Strandflutningar hafa lengi verið í deiglunni og mikið rætt um hvort þetta væri framkvæmanlegt. En nú sjá menn að þetta er ekki einungis vel framkvæmanlegt heldur er hægt er að flytja miklu meira magn svona en menn héldu. Það á líklega bara eftir að aukast. Samkeppnin er mikil og því skiptir miklu máli fyrir fyrirtækin á staðnum að þetta sé í boði.

            Þar sem hraðinn í nútímaþjóðfélagi er svo mikill og verslanir með lítinn lager á Ísafirði þá þurfa bílarnir að vera á ferðinni samhliða skipaflutningunum.. Almenn vara sem pöntuð er í dag þarf að vera til afgreiðslu á morgun hjá okkur. Matvara og almenn verslunarvara verður ekki flutt með skipi nema að litlu leiti. Ég er samt vongóður um að sjóflutningar eigi eftir að aukast t.d. með þeirri atvinnuuppbyggingu í fiskeldi sem er í undirbúningi.“