Orkuboltar fá útrás

Hjá Samskipum er mikil áhersla lögð á að saman fari leikur og störf. Það er séð til þess að orkuboltarnir fái útrás á vinnustaðnum. Það sama á við um alla þá sem vilja auka þol og almenna hreysti, andlega jafnt sem líkamlega.

Starfsfólk Samskipa hefur aðgang að tveimur íþróttasölum frá því eldsnemma á morgnanna og langt fram á kvöld. Annar þeirra er fjölnotasalur þar sem stundaðar eru margvíslegar íþróttir. Hinn er vel búinn tækjasalur fyrir þá sem vilja byggja upp og viðhalda styrk og vöðvamassa.

Þrisvar í viku stendur starfsfólkinu til boða að skella sér í skipulagða tíma sem byggja á Metabolic æfingakerfinu, en það eru þrekæfingar fyrir þá sem vilja minnka fitu og auka vöðvamassa, styrk, kraft, hraða og þol. Þeim sem vilja blanda saman líkamlegri og andlegri þjálfun því boðið upp á yoga tíma tvisvar í viku, auk þess sem fyrirtækið býður starfsmönnum sínum einu sinni í viku upp á tíma í badmintoni í húsi TBR.

Fjöldi starfsfólks skokkar reglulega og góður hópur frá Samskipum tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Aðrir kjósa að ganga en gönguhópur Samstarfs, starfsmannafélags Samskipa, hefur hist reglulega í sumar og gengið m.a. á Vífilsfell, Keili og yfir Fimmvörðuhálsinn.

Þótt fjöldi fólks hjóli reglulega til og frá vinnu vilja margir meira og mikill metnaður er hjá nýstofnuðum hjólahópi Samstarfs sem á dögunum hjólaði Jaðarinn, skemmtilega leið frá Rjúpnadalshnjúkum við Bláfjallaveg niður í Lækjarbotna og þaðan inn á gömlu Heiðmerkurleiðina en algengur endapunktur Jaðarsins er á bensínstöð Olís við Rauðavatn.
 
Golfklúbbur Samstarfs er bæði öflugur og fjölmennur en hann stendur fyrir metnaðarfullri mótaröð yfir sumartímann og þeir sem vilja stærri bolta leggja sig fram á fótbolta- og körfuboltamótum starfsmannafélagsins.
 

Já, það er sitthvað í boði fyrir starfsfólk Samskipa!