Öryggið ofar öllu

Hann heitir Bergvin Þórðarson – í daglegu tali nefndur Beggi og hann er öryggisstjóri Samskipa. Skoðum nánar í hverju starf hans er fólgið.

„Í stuttu máli má segja að hlutverk öryggisdeildar sé eftirlit með aðgangs-, bruna- og myndavélakerfi ásamt því að tryggja að farið sé eftir lögum og reglum um hafnarvernd og farmvernd“ segir Beggi og leiðir okkur síðan í allan sannleika hvað þar er átt við.

„Hafnarverndarlöggjöfin felur fyrst og síðar í sér vöktun á skipum, svæði og eftirlit með vörum á svæðinu. Við verðum að tryggja að engir óviðkomandi séu á svæðinu eða reyni að komast inn á svæðið. Eftir 11. september 2001 breyttist landslagið. Frá þeim tímapunkti var ekki lengur hægt að valsa um hafnarsvæðið að eigin geðþótta, - fara á rúntinn niður á höfn eins og margir þekkja, heldur gilda um það sömu reglur og um alþjóðaflugvelli. Gera þarf sérstakt áhættumat og verndaráætlun fyrir hafnarsvæðið sem þarf að samþykkjast af Ríkislögreglustjóra sem endurnýjast á 5 ára fresti ásamt því að fá óháða úttekt frá eftirlitsstofnun ESA sem kemur í „óvænta heimsókn“.  Inn á hafnarsvæðið fer enginn sem ekki á þangað erindi eða hefur verið samþykktur inn á svæðið af þar til gerðum aðilum.“  Til merkis um alvarleika þessa má nefna að Bergvin er vottaður til starfans af Interpol.

En hvað er þá farmvernd? „Ef vara er lestuð í gám til útflutnings,  skal lista upp og skrá innihald gáms. Þartilgerður vottaður farmverndarfulltrúi skal fylgjast með lestun og kvitta upp á að það sem sagt er vera í gámnum sé þar í raun og veru og gámurinn síðan innsiglaður. Þessi listi fer til tollayfirvalda og viðkomandi hafnar þar sem skipa á upp gámnum. Þar með skal vera tryggt að það sem út úr gámnum kemur sé það sem á listanum stendur.“

Alþjóðlegur öryggisráðgjafi

Eitt af því sem flutningafyrirtæki taka að sér, er flutningur á ýmiskonar varningi sem fellur undir svokallaðar ADR reglugerðir en þær fjalla um efni sem flokkuð eru sem hættuleg. Til að mega þjálfa, taka út og gefa ráð varðandi flutning á hættulegum efnum þarf alþjóðlega vottun og er Beggi einn af fjórum Íslendingum sem hefur slíka vottun. „Tryggja þarf að farmur sem fellur undir ADR reglugerðina sé meðhöndlaður og fluttur á réttan hátt, réttir pappírar fylgi og þeim komið til hlutaðeigandi aðila á réttum tíma. Þegar slík vara kemur til landsins kemur það fram á lista yfir farm skips. Vinnueftirlitið, lögreglan og vegaeftirlitið fylgjast einnig með að farið sé að lögum og reglum. Það er mjög mikið um flutning á hættulegum efnum, meira en nokkur gerir sér grein fyrir og er það svo sem ágætt, almenningur á ekki að þurfa að spá í það. Við sem erum til þess valin að vinna við þetta tryggjum að farið sé að öllu með gát. Allir sem að flutningi slíks farms koma þurfa að hafa lokið prófi um flutning á hættulegum efnum sem Vinnueftirlitið stendur fyrir.“

Brunavarnir mikilvægur öryggisþáttur í starfsemi Samskipa

Í húsnæði Samskipa við Kjalarvog eru fullkomin brunavarna- og eftirlitskerfi sem beintengd eru við stjórnstöðvar Securitas og Öryggismiðstöðvar Íslands. „Þetta er afar mikilvægt til að tryggja öryggi starfsmanna og þann farm sem okkur er falinn á hverjum tíma. Við prófum kerfin reglulega, þjálfum brunavarnafulltrúa og starfsfólk allt í viðbrögðum til að tryggja að komi eitthvað fyrir, kunnum við til verka og getum hugsanlega komið í veg fyrir tjón.“

Brostu – þú ert í mynd

Hjá Samskipum er til staðar afar fullkomið myndavélakerfi, en hvað sem menn kunna að halda þá er það fyrst og fremst vörueftirlitskerfi. Þetta kerfi er mjög þétt og fylgist með lestun, losun og afgreiðslu á farmi út og inn af svæðinu og frá vörumiðstöð Samskipa. Hliðið er mikilvægur hlekkur í öllu eftirliti. Þar sitja starfsmenn öryggisdeildar og hleypa einungis þeim inn sem fengið hafa tilskilin leyfi. Einnig sjá þeir um að allir gámar sem fara í gegnum hliðið og fara lestaðir í skip séu vigtaðir og skráðir inn og út úr kerfinu eftir því sem við á.

Góðkunningi lögreglunnar

„Það er oft haft í flimtingum að ég sé góðkunningi lögreglunnar, og er það alveg rétt en bara í raunverulegri merkingu þeirra orða. Ég á mikil og góð samskipti við lögregluna auk ýmissa stofnana eins og rannsóknarnefnd umferðarslysa. Þetta kemur til af því að ég tek þátt í rannsóknum á vinnuslysum og umferðaslysum sem tengjast okkur á einhvern hátt. Ég er kallaður til ef slík slys verða og reyni eftir fremsta megni að aðstoða og síðan koma af stað umbótaverkefnum til að fyrirbyggja að slys hendi, starf öryggisstjóra felst líka í því.“

Bergvin er búin að vinna við þetta síðan 2004 og hefur séð miklar breytingar bæði á lögum, reglugerðum og í tækni. „Það verður að segjast eins og er að við sem störfum í þessum geira höfum hagnast á stríði ef svo má að orði komast. Tækniframfarirnar koma þaðan. Það er margt framundan hjá okkur, margar spennandi nýjungar sem munu hjálpa okkur að fylgja farmi betur en áður og þar með tryggja að hann berist móttakanda í því ástandi sem um var samið!“