Pálmar Óli nýr forstjóri Samskipa
Stjórn Samskipa hefur gengið frá ráðningu
Pálmars Óla Magnússonar í stöðu forstjóra Samskipa hf. Pálmar mun hefja störf hjá Samskipum þann 7.
júlí n.k.
Stjórn Samskipa hefur gengið frá ráðningu Pálmars Óla Magnússonar í stöðu forstjóra Samskipa hf. Pálmar mun hefja störf hjá Samskipum þann 7. júlí n.k. Fyrstu mánuðina í starfi mun hann sinna ýmsum verkefnum með aðsetur ýmist í Reykjavík eða Rotterdam. Pálmar tekur svo formlega við forstjórastöðunni eigi síðar en 1. október nk.
Pálmar hefur yfirgripsmikla rekstrar- og stjórnunarreynslu og þekkir vel til Samskipa. Á árunum 1998 – 2011 starfaði hann hjá félaginu fyrst sem deildarstjóri flutningastjórnunardeildar, síðan framkvæmdastjóri rekstrarsviðs erlendrar starfsemi, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og síðast framkvæmdastjóri millilandasviðs og staðgengill forstjóra. Pálmar er því öllum hnútum kunnugur hjá félaginu. Það er mikill fengur fyrir Samskip í Pálmari og mun hann leiða félagið inn í framtíðar áskoranir.
Pálmar kemur til Samskipa frá Landsvirkjun þar sem hann hefur undanfarin þrjú ár starfað sem framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs.
Pálmar er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og hefur lokið framhaldsnámi Dipl.-Ing í vélaverkfræði frá Karlsruhe University og CS gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands.
Pálmar er kvæntur Hildi Karlsdóttir grunnskólakennara og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn.