Samfélagsábyrgð er leiðarstefið

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, segir Samskip meðvituð um að hér séu allir á sama báti við að byggja upp gott samfélag. (Mynd: FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI)

MYND 1: Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, segir Samskip meðvituð um að hér séu allir á sama báti við að byggja upp gott samfélag. (Mynd: FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI)

Fjallað var um aðgerðir og nálgun Samskipa á sviði samfélagsábyrðar í aukablaði Fréttablaðsins 28. febrúar síðastliðinn. Fram kemur í umfjölluninni að Samskip eru leiðandi í aðgerðum sem draga úr orkunotkun og minnka umhverfisfótspor og að í mannauðsmálum hafi fyrirtækið líka að leiðarljósi gildi jafnréttis og jákvæðra samskipta. Texti umfjöllunarinnar fer hér á eftir.

Óvíst er að allir átti sig á hversu mikla áherslu Samskip leggja á samfélagsábyrgð í störfum sínum, en þar undir falla náttúrlega bæði aðgerðir í þágu sjálfbærni og til mótvægis við skaðleg umhverfisáhrif og ekki síður mannauðs- og jafnréttisstefna fyrirtækisins,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa. „Meðvitund um samfélagsábyrgð hefur alla tíð verið leiðarstef í starfsemi félagsins.“

Þórunn bendir á að Samskip beiti sér fyrir virkum aðgerðum á sviði umhverfismála, taki þátt í nýsköpun og þróun til að draga úr umhverfisáhrifum og séu með fyrstu fyrirtækjum til þess að setja sér markvissa umhverfisstefnu. „Í hnotskurn er hún að Samskip stefni að því að vera ávallt í fararbroddi á sviði umhverfismála. Svo fylgir því líka fjölþættur ávinningur að draga úr orkunotkun, jafnt fyrir fyrirtækið og samfélagið í heild. Það leiðir til aukinnar hagræðingar í starfseminni og minnkar umhverfisfótspor fyrirtækisins um leið og dregið er úr innflutningi á eldsneyti og sóun á orkuauðlindum heimsins. Orkusparandi aðgerðir tikka í öll boxin.“

Góður starfsandi

Mannauðsstefnan kristallist svo í kjörorði félagsins um að það sé gott að vinna hjá Samskipum. „Góður starfsandi skiptir höfuðmáli, enda eykur jákvætt viðhorf starfsfólks starfsánægju og gleði á vinnustaðnum og við leggjum áherslu á jákvæð og uppbyggjandi samskipti og jafnræði á meðal starfsmanna, óháð kyni, uppruna eða trúarbrögðum.“ Samskip hafa líka skrifað undir sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi.

Þetta eru meira en orð á blaði og markmiðunum fylgt eftir. Félagið hefur innleitt hjá sér jafnlaunakerfi og jafnréttisstefnu sem nær til allra starfsmanna á Íslandi. „Þetta er í anda þess samfélags sem Íslendingar hafa sammælst um að byggja upp, þar sem jafn réttur einstaklinga er í fyrirrúmi,“ segir Þórunn, en með skýrum verklagsramma sé leitast við að tryggja jafnrétti og jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækisins og að starfsmenn hafi jöfn tækifæri til að nýta hæfni sína í starfi.


Kjörorð Samskipa eru að það sé gott að vinna hjá fyrirtækinu. Þar er starfsandinn líka góður og jafn réttur einstaklinga í fyrirrúmi. (Mynd: FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI)

Samskip í fararbroddi

Hvað umhverfismál varðar hafa Samskip lengi verið í fararbroddi og ætla að halda þeirri stöðu. „Við kappkostum að fylgjast vel með allri þróun og nýjungum og setjum okkur skýr markmið um árangur. Hann mælum við líka reglulega og tryggjum þannig stöðugar umbætur og framþróun.“

Þórunn viðurkennir um leið að það geti verið áskorun að ná settum markmiðum, því flutningar á sjó séu í eðli sínu mengandi, þótt hlutfallstölur á flutta einingu séu margfalt betri en til dæmis með flugi. „Svo geta komið sveiflur í inn- eða útflutningi sem hafa áhrif á tölur um útblástur á móti hverju fluttu tonni. En markmiðin halda okkur við efnið og við vitum að hverju er stefnt, þ.e.a.s. að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif frá allri starfsemi félagsins.“ Fjölþátta flutningskerfi Samskipa, sem í Evrópu notist einnig við lestir og pramma, auk skipa og flutningabíla, sé í samræmi við markmið Evrópusambandsins um leiðir til að draga úr útblæstri frá flutningum.

Hverfa frá plasti og pappír

Samskip mæla orkunotkun reglulega, nýta vistvæna orkugjafa eins og kostur er og leitast við að halda mengun í lágmarki. Við val á birgjum, tækjum og öðrum aðföngum er svo leitast við að velja umhverfisvæna kosti umfram aðra. Um þrjú ár eru síðan plastmál og -flöskur voru gerðar útlægar hjá Samskipum og unnið hefur verið markvisst að því að minnka pappírsnotkun. „Frá og með áramótum hættum við til dæmis að taka á móti reikningum á pappírsformi og fáum þá rafrænt í staðinn.“

Eins er markvisst unnið að því að draga úr matarsóun í mötuneyti Samskipa og tölur birtar á hverjum degi um magn afganga til að vekja fólk til umhugsunar. „Þetta hefur strax skilað árangri og fólk gætir fremur að skammtastærðum til þess að síður þurfi að henda afgöngum.“

Þá eiga Samskip í margvíslegu samstarfi innanlands um aðgerðir til stuðnings umhverfinu, svo sem við Brim, Norðanfisk og Íslenska gámafélagið um endurvinnslu og útflutning á frauðplasti. Auk þess flytja Samskip sorp frá Íslenska gámafélaginu sem ekki er hægt að endurvinna eða endurnýta hér heima til brennslu í Evrópu. „Ávinningur af því er tvíþættur því ruslið þarf þá ekki að urða hér, með tilheyrandi umhverfissóðaskap, heldur nýtist það til húshitunar og raforkuframleiðslu erlendis sem annars hefði verið staðið að með brennslu kola eða olíu.“

Fyrir utan beinar aðgerðir styðja Samskip líka við margs konar málefni. Til dæmis eru Samskip stofnaðilar að Votlendissjóðnum, þar sem Þórunn Inga er varamaður í stjórn. „Stuðningur við slík verkefni er hluti af umhverfisstefnu Samskipa, auk beinna aðgerða til að draga úr kolefnisfótspori starfseminnar,“ segir Þórunn, en fyrirtækið hefur líka styrkt íþróttafélög, líknarfélög og menningarfélög af ýmsu tagi. „Slíkar styrkveitingar eru í samræmi við stefnu Samskipa um samfélagslega ábyrgð, enda erum við öll á sama báti þegar að því kemur að byggja gott samfélag og hlúa að því sem vel er gert.“

Margvíslegar aðgerðir

  • Gámar Samskipa eru nú um 960 kílóum, eða 20%, léttari en þeir voru fyrir 20 árum sem dregur úr orkunotkun.
  • Árið 2015 tóku Samskip við rekstri skipanna Kvitnos og Kvitbjørn sem brenna fljótandi jarðgasi (LNG). Skipin losa ekki köfnunarefnisoxíð, lágmarka brennisteinsdíoxíð og losa 70 prósent minni koltvísýring á hvert flutt tonn.
  • Samskip leiða „Seashuttle“ verkefnið þar sem í þróun er næsta kynslóð sjálfbærra skipaflutninga á styttri sjóleiðum, sjálfvirk gámaskip sem gefa ekki frá sér mengaðan útblástur.
  • Hjá systurfyrirtækið Samskipa í Rotterdam, FrigoCare, er að finna stærsta sólarorkuver borgarinnar, 3.100 sólarsellur sem þekja 7.500 fermetra. Raforkuframleiðslan nemur raforkuþörf um 250 smærri heimila.
  • Samskip nota vöruflutningabifreiðar sem eru ríkulega búnar tækjum og tólum sem miða að því að auka öryggi og tryggja minni útblástur og eins vistvænan flutning og völ er á.
  • Þvottastöð Samskipa í Reykjavík fyrir stór ökutæki er eins visthæf og kostur er og notast við frárennslisvatn úr hitakerfum höfuðstöðvanna.
  • Í fyrra voru Samskip tilnefnd til verðlauna Safety4Sea og Europort í flokki hreinna flutninga fyrir markvissan stuðning við nýjungar í sjálfbærum flutningum með rannsóknum, þróun, innleiðingu tækninýjunga og þjálfun.

Greinina má einnig skoða á vef Fréttablaðsins: https://www.frettabladid.is/kynningar/samfelagsabyrg-er-leiarstefi/